Halldór Þorgils Þórðarson sæmdur fálkaorðu

0
2519

halldorfalkaordaÞann 17.júní 2012 á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga var Halldór Þorgils Þórðarson fyrrum bóndi á Breiðabólsstað á Fellsströnd og tónlistarmaður með meiru um áratugaskeið í Dalabyggð, sæmdur hinni íslensku fálkaorðu við hefðbundna athöfn að Bessastöðum.

Halldór hefur verið burðarás í tónlistarlífi Dalamanna um langan aldur sem kórstjóri, harmonikuleikari,tónlistarkennari,skólastjóri og fleira mætti til telja. Starf hans hefur sannarlega eflt samhljóm í héraði, hvatt unga til dáða á sviði tónlistar og hefur Halldór verið fyrirliði á sorgar- og gleðistundum í öllum okkar kirkjum og félagsheimilum hvenær sem eftir því hefur verið leitað.

Í þróttmiklu tónlistarlífi felst ótrúlegur sameingingarmáttur sem er fámennu byggðarlagi afar mikilvægur og gefandi. Fögnum vegtyllu Halldórs að Bessastöðum í gær, samgleðjumst og minnumst þess um leið að blómlegt menningarlíf er ekki sjálfgefið. Það þarf mennina til og lífsþróttinn, en af því eigum við enn nóg – það er bara að hafa augun opin og virkja mannauðinn.

Sunnudaginn 15.apríl 2012 síðastliðinn hittum við Halldór og tókum tali. Viðtalið fór fram í Hjarðarholtskirkju en þennan dag fór fram ferming þriggja ungmenna úr Dalabyggð og þá sem svo oft áður sá Halldór Þórðarson um undirleik á orgel Hjarðarholtskirkju. Viðtalið má finna hér fyrir neðan og í myndbandasafni hér á síðunni.

Sjá einnig ljósmyndir frá athöfninni hér.

Leiðrétting:

Fögur er kirkjan, þökk sé Rögnvaldi en ekki Guðjóni.
„Í viðtalinu við Halldór Þ. Þórðarson í Hjarðarholtskirkju hér á Búðardalur.is segi ég kirkjuna vera hugverk Guðjóns Samúelssonar hins fræga arkitekts sem teiknað hefur fegurstu byggingar á Íslandi margar hverjar.Hann kemur þó hvergi nærri þegar um Hjarðarholtskirkju er að ræða -hún er hugverk Rögnvaldar  Ólafssonar húsameistara en hann er fyrsti íslenski arkitektinn í Íslandssögunni segja fræðin.Beðist er hér með velvirðingar á þessum mismælum.“  – Virðingarfyllst; Þorgeir Ástvaldsson