
Taka má heilshugar undir athugasemdir margra Vestlendinga að heldur snautlega er staðið að umbótum í samgöngumálum á Vesturlandi samkvæmt nýsamþykktri samgönguáætlun Alþingis fyrir árin 2011-2022. Umræður um samgönguáætlunina stóðu yfir á Alþingi nú á dögunum og segja má að sláandi niðurstöður komi fram í þessari áætlun innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar og þá sérstaklega ef horft er til Dalanna. Þó kemur fram á vef Innanríkisráðuneytisins að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi sagt eftir að áætlunin hafði verið samþykkt að um væri að ræða fagnaðarefni.
Í fyrstu umræðu um áætlunina þann 19.janúar 2012 var þingmaður Dalanna, Ásmundur Einar Daðason til andsvara í ræðustóli Alþingis. Fram kom hjá Ásmundi að eftir að hann hefði rýnt í samgönguáætlunina hafi komið í ljós að engar vegaframkvæmdir væru áætlaðar á fjölmörgum stöðum og landsvæðum í kringum landið allt til ársins 2022. Andsvar Ásmundar má sjá á myndskeiðinu hér neðst í þessari frétt og í myndbandasafni hér á síðunni.
Það á nánast ekki að stinga niður skóflu næstu árin í gjörvöllu kjördæminu og er sama hvert litið er. Breikkun brúa, bundið slitlag á jaðarsvæðum, breikkun vega og umbætur á þjóðveginum yfirleitt á gjörvöllu svæðinu, ekkert á að gera. Svo ekki sé nú talað um vinsælasta umræðuefnið í samgöngubótum í dag,nefnilega jarðgöng.
Það hefur nokkrum sinnum í sögunni verið bent á þann möguleika að gera göng undir Bröttubrekku með haldbærum rökum samanber hugmyndir sem fram komu árið 2007 hjá fyrirtækinu Leið ehf. Fyrirtækið Leið ehf með Jónas Guðmundsson í fararbroddi fengu fyrirtækið Línuhönnun hf til að athuga möguleika á styttingu vega milli Haukadals í Dalabyggð til Hrútafjarðar. Miðaðist þessi athugun að því að gera megin vegtengingar milli Vestur og Norðurlands frá Holtavörðuheiði yfir á Bröttubrekku og Dali að raunhæfari kosti. Minnisblað Leiðar ehf má skoða hér.
Spurningin er hinsvegar sú hvort Dalamenn láti þetta yfir sig ganga eða láti í sér heyra nú þegar það liggur fyrir svart á hvítu að ekkert á að gera í vegaframkvæmdum í Dölum a.m.k næstu rúmu 10 árin!