Strætó frá 1956 og kassabílatilþrif

0
1426

baejarhatid_kalliGóð stemmning var á bæjarhátíðinni „Heim í Búðardal“ nú um liðna helgi. Segja má að hátíðin hafi heppnast vel í alla staði og allir hafi skemmt sér vel.  Höfðu sumir á orði að svona bæjarhátíð væri nauðsynleg fyrir Dalamenn til þess að heimamenn og brottfluttir hefðu vettvang til þess að hittast og spjalla.

Strætisvagnasamgöngur er eitthvað sem er venjulega ekki í boði í Búðardal en Karl Ingi Karlsson hjá KM-Þjónustunni fékk þá hugdettu að bjóða ungum sem öldnum uppá fríar almenningssamgöngur í opnum vagni um liðna helgi. Vagninn sem smíðaður var af Jóni Agli Jóhannssyni bónda á Skerðingsstöðum dró Karl á dráttarvél sinni sem er 1956 árgerð af Farmal Mc Cormick.

Föstudaginn 6.júlí ók Karl frá 19:00 til 23:00 með fólk á milli súpustaða en þá buðu heimamenn gestum og gangandi uppá íslenska kjötsúpu. Á tímabili mun vagninn hafa verið vel hlaðinn rosknu fólki og mátti þessi aldna dráttarvél hafa sig alla við til að hafa það upp bröttustu brekkurnar.  Á laugardeginum ók Karl svo frá því um hádegi og fram undir kvöldmat og var hann þá um kvöldið að eigin sögn orðin nokkuð lúinn á því að aka um þorpið á þessu annars ágæta farartæki, en fjaðurbúnaður vélarinnar ku vera nokkuð stífur.

Kalli á Mac Cormick | Ljósm. Steina Matt - km.is

Eins og áður hefur verið skrifað um hér var gerður góður rómur að heimsókn Vestfjarðavíkinga í Dalina og vonast Dalamenn eftir því að þessir víkingar séu komnir til að vera að minnsta kosti árlegir gestir hér eftir. Einnig setti það skemmtilegan svip á hátíðina á laugardeginum þegar fornbílaeigendur í Dölum komu með tæki sín og höfðu þau til sýnis fyrir gesti og gangandi.

Að lokum verður ekki hjá því komist að minnast á vel heppnað og skipulagt kassabílarallý KM-Þjónustunnar sem haldið var klukkan 17:00 á laugardeginum fyrir utan húsnæði KM-Þjónustunnar. Eftir helgina fóru að berast sögur þess efnis að fólk sem einhverra hluta vegna komst ekki á hátíðina fylgdist vel með í vefmyndavélinni og náði fólk meðal annars að sjá kassabílarallýið í myndavélinni.

Kassabílaforingi var Hjörtur Vífill Jörundsson og fengum við sendar upplýsingar um úrslit keppninnar frá honum en þau urðu sem hér segir:

Yngri flokkur (smjattpattar)
1.sæti Helgi Fannar og Elvar á Frikka. Samanlagður tími: 42.92 sekúndur

Unglingar
1.sæti Helena Rós og Skarphéðinn Ísak Sigurðarbörn á Fjósaþrumuni. Samanlagður tími 36.51 sekúnda

Aukaverðlaun:
Af gamla skólanum (hinn ekta kassabíll). Ármann og synir. Ármann Rúnar Sigurðsson, Daníel og Björgvin Ármanssynir á P-16.

Hraðasektin:
Angantýr Ernir og Andrea.

Best skreytti bíllinn:
Hann kom frá Grund í Reykhólasveit. Tindur og Ketill Guðmundssynir.

Bestu tilþrifin:
Hilmar Ásgeirsson og Þórður á Tundurskeytinu og ‘STIGA’sleðanum.