Eyðibýlið Hóll í Hörðudal brann í nótt

0
1810

hollBærinn Hóll í Hörðudal brann í nótt, en þetta kemur fram á fréttavefnum MBL.is. Slökkvilið Dalabyggðar mun hafa fengið tilkynningu um brunann um klukkan 06:20 í morgun og voru fjórir slökkviliðsmenn á tveimur dælubílum komnir á staðinn um 20 mínútum síðar en þá mun húsið hafa verið fallið að sögn Sæmundar Jóhannssonar varaslökkviliðsstjóra slökkviliðs Dalabyggðar í samtali við mbl.is.

Hóll í Hörðudal var eyðibýli og engan mun hafa sakað í þessum bruna. Á Hóli bjó Guðmundur Guðbrandsson eða Mundi á Hóli eins og flestir Dalamenn þekktu hann en Mundi lést þann 20.nóvember 2011 þá 96 ára að aldri. Ekki er vitað um eldsupptök en það mun nú vera í höndum lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum að rannsaka eldsupptök. Slökkviliðsmenn gegnbleyttu jarðveginn umhverfis húsið til þess að koma í veg fyrir að eldur kæmist í jarðveginn en miklir þurrkar hafa verið í Dölum undanfarið.

Loftmynd af Hóli í Hörðudal | Ljósm: Mats Wibe LundÓlafur Jóhannesson og kvikmyndafélag hans Poppoli Pictures gerðu eins og kunnugt er heimildamynd um baráttu bænda í Dölum og þar á meðal heimsóttu þeir Munda á Hóli og fylgdust með lífi hans og störfum um tíma en heimildarmyndin var gefin út stuttu fyrir andlát Munda. Sjá frétt á vef mbl.is

Horfa má á heimildarmyndina Land míns föður hér fyrir neðan.