Fengu ekki bensín í Búðardal

0
1360

ekkert-bensinSú staða kom upp um hádegið í gær að bensíndælur N1 í Búðardal biluðu og var því ekkert eldsneyti að hafa þar í um það bil 5 klukkustundir samkvæmt heimildarmanni Búðardalur.is.

Engin vaktþjónusta eða þjónusta við eldsneytisdælur N1 er í Búðardal og því þurfti að kalla til viðgerðarmann úr Reykjavík til að koma dælunum í lag. Skapaði þetta mikil óþægindi fyrir ferðamenn sem og heimamenn sem huggðust setja eldsneyti á farartæki sín. Fram kemur á Facebook síðu eins heimamanns að fyrirhuguð ferð sem hann hafi ætlað í hafi farið út um þúfur þar sem bifreið hans var bensínlaus og ekkert bensín að hafa í Búðardal.

Margir hugsa eflaust til baka til gömlu daganna þegar samkeppni ríkti á eldsneytismarkaði í Dölum þegar tvær bensínstöðvar voru í Búðardal. Hefði þessi staða komið upp þá hefðu menn bara getað bjargað sér og sótt eldsneyti í Olís sjoppunni. Margir hafa rætt um það í gegnum árin að samkeppni vanti á eldsneytismarkaði í Dölum og munu þær raddir örugglega ekki minnka við uppákomu sem þessa.

Í ljósi gríðarlegrar aukningar á umferð í gegnum Dali síðustu ár er það án efa umhugsunarefni fyrir aðila á eldsneytismarkaði að skoða þann möguleika að koma upp bensíndælum í Dölum og gefa þannig heimamönnum sem og ferðamönnum kost á því að hafa val um það hvert þeir beina eldsneytiskaupum sínum.