Fáir farþegar í fyrstu ferð

0
1270

straetobdl2Þeir voru ekki margir farþegarnir sem nýttu sér fyrstu ferð Strætó bs vestur í Dali í gær. Í raun var enginn farþegi sem var á leið í Búðardal en nokkrir nýttu sér ferðina upp í Borgarnes.

Þá voru einhverjir sem tóku strætóferðina alla leið til Hólmavíkur. Þetta er haft eftir Júlíu Þorvaldsdóttur sviðsstjóra farþegaþjónustusviðs Strætó BS en Búðardalur.is sendi fyrirspurn til Strætó til að kanna viðbrögð við þessari bættu þjónustu í samgöngumálum á Vesturlandi.

Ekki var svo sem við að búast að langar biðraðir farþega væru við þjónustumiðstöð Strætó í Mjódd að bíða eftir vagninum í Búðardal svona í fyrstu ferð þar sem um nýja þjónustu er að ræða og var hún heldur ekki mikið auglýst fyrirfram.

Það verður þó að segjast að þegar tímataflan er skoðuð að þá myndi það örugglega skila Strætó örlítið fleiri farþegum ef farin væri ferð vestur síðdegis á föstudegi þannig að þeir sem hefðu það í hyggju að fara vestur yfir helgi gætu tekið vagninn eftir vinnu og svo til baka með sunnudagsferðinni klukkan 18:55.

Að sjálfsögðu sat okkar maður, Hjörtur Vífill,  fyrir strætóbílstjóranum með myndavélina að vopni og náði þessum einstöku myndum þegar strætó kom sína fyrstu ferð vestur í Dali.