Jói í Gröf Íslandsmeistari í rúningi 2012

0
1159

joigrofHaustfagnaður Félags sauðfjárbænda í Dalabyggð (FSD) stendur nú sem hæst. Í gærkvöldi fór fram sviðaveisla og hagyrðingakvöld í íþróttahúsinu að Laugum í Sælingsdal og var fullt hús og mikið fjör að sögn viðstaddra og þeirra sem tjáðu sig um skemmtunina á Facebook eftir að þeir skiluðu sér til síns heima undir morgun.

Þá fór fram lambhrútasýning og hrútamót í innanhúsknattspyrnu í morgun. Í dag bar þó hæst Íslandsmeistarakeppni í rúningi sem fram fór í reiðhöllinni í Búðardal en þar bar sigur úr býtum Jóhann Hólm Ríkharðsson bóndi í Gröf í Laxárdal eða Jói í Gröf eins og heimamenn þekkja hann.

Meðfylgjandi ljósmynd er af Jóhanni í sigur rúningnum. Búðardalur.is óskar Jóa í Gröf innilega til hamingju með sigurinn en hann fékk að launum vegleg verðlaun sem innihéldu meðal annars hótelgistingu á Hótel Sögu.

Þá var hönnunarkeppni FSD og Ístex, vélasýning og markaður í reiðhöllinni í dag.

Haustfagnaði FSD lýkur svo í kvöld með stórdansleik með hljómsveitinni Hvanndalsbræðrum í Dalabúð.

Við munum gera upp haustfagnað FSD hér á síðunni í máli og myndum innan skamms og birta ljósmyndir og myndbönd af viðburðum sem fram fóru.