Án rafmagns í rúma tvo sólarhringa

0
1440

saurbaerRafmagn er nú komið á í Saurbæ og hluta Fellsstrandar samkvæmt því er fram kemur á vef Almannavarna. Rafmagn mun hafa komið á um klukkan 7 í morgun en ekki hefur enn tekist að koma rafmagni á Fellsströnd frá bænum Víghólsstöðum að Klofningi.

Þegar Búðardalur.is sló á þráðinn til Ásgerðar Jónsdóttur bónda á Kverngrjóti í Saurbæ sagði hún það hafa verið kærkomið þegar rafmagnið kom aftur á snemma í morgun en þau hafi verið búin að vera án rafmagns í rúma tvo sólarhringa.

„Við erum búin að lifa á brauði frá því að rafmagnið fór fyrir tveimur sólarhringum síðan og það er búið að vera kalt. Við áttum ekki primus til að elda á en fundum múrsteina sem við hlóðum undir pönnu og notuðum svo gastæki til að hita mat á pönnunni,“

Aðspurð um kulda í rafmagnsleysinu sagði Ásgerður„Það var orðið frekar kalt í húsinu en við klæddum okkur upp í lopapeysur og lopasokka og héldum okkur svo mest saman á einum stað í húsinu. Það myndaðist líka mikill raki innan á öllum gluggum þegar það fór að kólna svona í húsinu.“

Margir kúabændur í Surbæ hafa líka lent í miklum vandræðum með mjaltir sökum rafmagnsleysisins. „Menn hafa bara þurft að handmjólka en sumir eiga og hafa getað nýtt sér ljósavélar til að klára mjaltirnar. Við fórum í bíltúr þegar veðrinu slotaði hér út í Hvolsdal og þar sáum við að megnið af öllum girðingum þar eru ónýtar og liggja niðri eftir veðrið, og ég hef heyrt að það hafi 17 rafmagnsstaurar brotnað bæði hér í Saurbæ og á Skarðsströnd“ segir Ásgerður.

Fram hefur komið að um er að ræða viðgerð til bráðabirgða á raflínunni og segja má með sanni að starfsmenn Rarik í Búðardal með Jónas Guðmundsson rafveitustjóra í fararbroddi hafi unnið þrekvirki við að koma rafmagni aftur á til bænda í Dölum.