Viðbygging við leikskólann í Búðardal í fullum gangi

0
1063

leikskoli2013Það voru bæði spenntir og forvitnir krakkar leikskóla Auðarskóla í Búðardal sem fylgdust með vinnu við nýja viðbyggingu við leikskólann á dögunum, en vinna við viðbygginguna er nú í fullum gangi.

41 barn stundar leikskólann í dag og segja má að mikill spenningur sé hjá börnunum og einnig starfsfólki leikskólans eftir því að verkið klárist og hægt verði að flytja inn í nýju bygginguna.

Með tilkomu viðbyggingarinnar mun losna vel um nokkur rými sem í dag eru þéttsetin. Haft er eftir starfsfólki leikskólans að nýja byggingin eigi að verða tilbúin í mars.

leikskoli2013-2Í allri þeirri neikvæðu þjóðfélagsumræðu sem dynur á landsmönnum á þessum tímum verður að segja að þessi framkvæmd sé mjög jákvæð fyrir samfélag Dalanna og gott til þess að vita að hópurinn sem erfa á Dalina og taka við keflinu sé frekar að stækka.

Leikskólinn er til húsa við Miðbraut í Búðardal en fyrir viðbyggingu er pláss fyrir 35 börn samtímis í honum.

Leikskólinn skiptist í tvær deildir, Bangsadeild fyrir börn á aldrinum 18 mánaða til 3 ára og Álfadeild fyrir börn á aldrinum 3 ára til 6 ára.

Herdís Erna Gunnarsdóttir