Sannur Dalamaður í Danmörku

0
2578
Vinirnir Ármann Kristjánsson og Jóhann Pétursson, Jóhann Risi
Hér er mynd af tveimur Íslendingum. Annar er Dalamaður en hinn er Svarfdælingur. Sá lægri í loftinu heitir Ármann Kristjánsson og er frá Breiðabólsstað á Fellsströnd. Hann er fæddur á nýársdegi 1.janúar árið 1902. Hann var einn 12 systkyna en foreldrarnir voru Kristján Þórðarson og Sigurbjörg Jónsdóttir.

Fyrir þá sem yngri eru má nefna að Ármann var föðurbróðir Halldórs Þórðarsonar bónda á Breiðabólsstað og afabróðir þeirra Þorgeirs Ástvaldssonar, Péturs Ástvaldssonar og Magnúsar Ástvaldssonar. Sá er lengri er í loftinu á myndinni heitir Jóhann Pétursson,  Jóhann „risi“ oftast nefndur manna á meðal.

Leiðir Ármanns lágu til Kaupmannahafnar úr Dölum og giftist hann konu sinni Helene árið 1938 og gerðist verslunarmaður í borginni um margra áratuga skeið. Síðar gerðist hann vaktmaður í Gullfossi (skipinu fræga) og í húsi Jóns Sigurðssonar.

Hann hélt ströngum vinaböndum við marga Íslendinga og gætti þess vel að greiða götu þeirra í hvívetna. Kom það sér vel á erfiðum tímum stríðsára og báginda fólks eftir það. Fóru margar sögur af liðsinni hans þegar Íslendingar voru annars staðar.

Svarfdælingurinn stóri og Ármann urðu bestu vinir, enda báðir dalakútar. Gaman væri ef heyra mætti tal þeirra tveggja um lífið og tilveruna, heimshornaflakkið og leiðina heim, en auðvitað er því ekki hér að heilsa.

Búðardalur.is fékk senda grein um Ármann Kristjánsson frá syni hans Kjartani Barkhus Kristjánssyni og óskaði Kjartan eftir því að greinin yrði varðveitt hjá Menningarmiðju Dalanna og var það auðsótt. Kjartan kemur mjög oft til Íslands og viðheldur tengslunum. Og þriðja kynslóðin heldur einnig tengslunum og heimsækir alltaf Dalina þegar þau koma hingað til lands.kemur mjög oft til Íslands og viðheldur tengslunum.

Þá hefur Magnús Ástvaldsson oft heimsótt frændfólkið í Danmörku og er öllum þar einkar hlýtt til Íslands og til uppruna síns úr Dölunum.

Greinin um Ármann Kristjánsson birtist í heild sinni hér fyrir neðan en hún ber yfirskriftina „Sannur Íslendingur í Danmörku“.
Ljósmynd tekin 1962 úr safni Kjartans B.Kristjánssonar

Ármann Kristjánsson var fæddur á Breiðabólsstað, Fellströnd í Dalasýslu hinn 1. Janúar 1902. Foreldrar hans voru Kristján Þórðarson og Sigurbjörg Jónsdóttir sem bjuggu alla ævi á Breiðabólsstað. Jörðin hafði verið setin af sömu ætt síðan um 1750, þannig að ættin átti sér ríka sögu og menningararf. Foreldrar hans eignuðust þrjár dætur og níu syni, Ármann var níundi í systkinaröðinni. Um bræðurna átta sem náðu fullorðinsaldri, orti Margrét frá Hafurstöðum þessa vísu:

 

Þórður, Ingvar, Óskar, Karl

Ármann, Friðjón, Keli.

Ýtar sjá við annan stall

Yngsta bróður þeirra Hall

 

Ármann ólst upp á Breiðabólsstað í þesssari stóru fjölskyldu, en einnig var mjög gestkvæmt á heimilinu. Það var unnið mikið, en líka mikið lesið, spilað og sungið og alltaf var nægur tími til að fagna gestum og greiða götu þeirra á allan hátt. Þegar leiðin lá að heiman fór Ármann til Rafnseyrar og stundaði nám hjá prestinum þar, séra Böðvari Bjarnasyni árin 1919-21. Hann fór til Danmerkur til að stunda landbúnaðarnám á árunum 1921-23. Síðan lagði hann fyrir sig ýmis störf, m.a. barnakennslu árum saman og  vann sem starfsmaður á Kleppspítala, þar sem hann í 1938 kynntist og varð ástfanginn af Helene Barkhus, danskri hjúkrunarkonu, sem vann þar um tíma. Þar með hófst nýr kafli í lífi Ármanns, hann flutti til Kaupmannhafnar í Danmörku og giftist Helene og eignaðist fjögur börn. Í Kaupmannhöfn var síðan heimili hans til æviloka 1978.

 

Með hjálp fjölskyldunnar festu þau kaup á vindlabúð að Halmtorvet 1 og þar gátu þau einnnig búið fyrstu árin með eldri börnin. Þar bjuggu þau til ársins 1947. Þá fluttu þau að Thorvaldsensvej 21, þar sem tvö yngri börnin fæddust og Ármann keypti sölubúð að Nörre Voldgade 52. Seinna vann hann hjá Eimskipafélagi Íslands sem vaktmaður á skipum félagsins þegar þau lágu í höfn í Kaupmannahöfn. Frá árinu 1971 var hann ráðinn til að sjá um eftirlit og viðhald í húsi Jóns Sigurðsonar Íslanshúsinu, að Öster Voldgade 12.

 

Svo sem alkunnugt er getur brugðið til beggja vona um Íslendinga sem taka sér búsetu erlendis. Margir hverfa í fjöldann og koma aldrei aftur. Aðrir hugsa heim, en ýmis atvik og áhrif valda því að sú taug sem tengir þá við gamla landið, slaknar er tímar líða og slitnar næstum alveg. En oft er þessi taug svo sterk að hún endist til æviloka. Þannig var það hjá Ármanni, hann var stöðugt sannur Íslendingur og sannur Hafnar-Íslendingur alla ævi. Hann unni Íslandi af öllu hjarta og ekki síst átthögunum í Dölunum. Hann var sannur Dalamaður allt sitt líf. Hann naut þess að tala um Dalina sína og þegar hann ferðaðist til Íslands á sumrin, var hann ekki fyrr kominn en hann var rokinn vestur í Dali til að hitta ættingja og vini. Hann var jafnframt góður þegn síns nýja heimalands og hafði tileinkað sér margt það besta sem góðan Dana prýðir. Hann hugði aldrei til flutnings til Íslands. Hann var giftur Helene, sem hlúði að honum og bjó honum og börnunum, gott heimili, þó að hún tæki ekki mikinn þátt í störfum hans  meðal Íslendinga.

Á meðan seinni heimstyrjöldin geisaði og árin þar á eftir, má með sanni segja að verslun Ármanns hafi verið íslenskt “aukasendiráð“ í Kaupmannahöfn. Ofáir voru þeir landar sem leituðu til hans í hvers kyns vanda. Alltaf var hann fús til að veita úrlausn og oft raunverulega um efni fram og mun hann oft hafa borið skarðan hlut frá borði. Hann heimsótti þá Íslendinga sem  teknir höfðu verið höndum sem föðurlandsvikarar og sátu í Vestre fængsel og hann hafði alltaf meðferðis pakka með innihaldi sem hjálpað gæti upp á við aðstæðurnar. Íslendingarnir sem voru á flótta undan þjóðverjum, veitti hann húsaskjól og lagði með því fjölskyldu sína í hættu. Hann leigði íslenskum námsmönnum herbergi og oft var leigan borguð með íslenskum afurðum.

 

Ármann leit Ísland fyrst aftur augum 1947 og síðan 1950, þegar hann var einn af þeim fyrstu sem sigldu með M/S Gullfossi heim og tilbaka. Eftir það heimsótti hann Ísland reglulega. Í þessum ferðum sínum kom hann jafnan færandi hendi. Allt fram til 1960-70 þegar hagur Íslendinga tók að vænkast,kom hann með gjafir til ættingja og vina, gjafir eins og t.d. gallabuxur, reiknivélar og jafnvel kúlupenna.

 

Árið 1946 var Ármann kosin í stjórn Íslendingafélagsins og var formaður þess 1947-48. Eftir það og til æviloka var hann gjalkeri félagsins. Hann var einn af þeim mönnum sem framar öðrum markaði sín spor í félags- og menningarlíf Íslendinga í Kaupmannahöfn á þessum áratugum. Sem gjaldkeri kom það af sjálfu sér að hann var sá sem hafði mest samband við flesta landa sína í Danmörku og hafði umsjón með meðlimaskrá félagsins. Það var líka Ármann sem skipulagði hina árlegu menningarferðir félagsins og hann sem með hjálp fjölskyldunnar stjórnaði árlegri jólaskemmtun félagsins þar sem börnin fengu m.a.sælgætispoka. Þegar þurfti að senda út bréf með tilkynningum um ýmsa viðburði í Íslendingafélaginu, þá fór sú vinna einnig fram á heimilinu með hjálp fjölskyldunnar. Hann tók sjálfur ætíð virkan þátt í öllum viðburðum og samkomum félagsins.

 

Ármann átti alltaf gott samband við íslenska sendiráðið og íslensku prestana sem störfuðu við sendiráðið. Þeir urðu vinir hans og samstarfsmenn í starfinu í Íslendingafélaginu og í hjálparstarfi meðal Íslendinga. Á þessum árum störfuðu alls níu sendiráðsprestar í Kaupmannahöfn, ágætir menn og vel hæfir að dómi Ármanns. Hann aðstoðaði þá mikið í starfi, þar sem hann þekkti betur en flestir aðrir Íslendingar persónulega hagi og aðstæður hvers og eins Íslendings sem bjuggu í Kaupmannahöfn og nágrenni. Það voru margir í hópi eldri Íslendinga sem voru einmana og áttu fáa að. Ármann hélt persónulegum tengslum við þetta fólk, bæði með símtölum og heimsóknum. Hann vissi ætíð best hvernig hvejum og einum leið. Prestarnir fengu hann oft með sér þegar þeir heimsóttur aldraða Íslendinga vítt og breitt um borgina.

 

Ármann fylgdist vel með því sem gerðist á Íslandi, ferðum Íslendinga  til og frá landinu og lífsbaráttu þeirra í Danmörku. Einu sinni í viku fékk hann send öll helstu  dagblöðin og las þau öll af miklum áhuga. Í útvarpinu hlustaði hann alltaf á íslensku veðurfregnirnar. Hann kunni skil á ættum og var fljótur að átta sig á uppruna og ættum landa sinna sem bjuggu í lengri eða skemmri tíma í Kaupmannahöfn. Sagt var á, að fáir myndu fróðari honum um ýmsa þætti persónusögu og lífsháttu þessa fjölmenna hóps Íslendinga og veraldagengi þeirra, en Ármann. Einn af þeim Íslendingum sem Ármann hjálpaði mikið var “Íslenski risinn“ Jóhann Svarfdælingur, meðan hann bjó í Danmörku.

 

Íslenski rithöfundurinn Anna Jónsdóttir skrifaði m.a. eftirfarandi um Ármann eftir heimsók til hans í búðina að Nörre Voldgade 52:

 

“Eitt af þeim bestu þægindum, sem við nutum í þessari ferð í Kaupmannahöfn, var það, að Ármann Kristjánsson vinur minn hafði tekið sig til að versla rétt í þjóðbraut, eða nánar til tekið á Nörre Voldgade 52.

Það var mjög hentugt að geta stungið sér inn í þessa snotru sælgætisverslun, sem alltaf var opin og fá að tylla sér niður og hvíla sig, í smá herbergi, sem var inn af búðinni og Ármann virtist fyrst og fremst nota, til þess að geta boðið þar inn löndum sínum, þegar þá bar að garði.

Býst ég við að oft hafi hann haft hæpinn verslunarhagnað af þeim heimsóknum.

En andi hans þráði það heitt, sem íslenskt var og býst ég við að það hafi ráðið meira en peningavonin. Ef einhvern fýsir að vita hver hann er, þessi Ármann Kristjánsson, sem stendur allan daginn í lítilli sælgætisbúð úti á Nörre Voldgade 52 í Kaupmannahöfn og safnar öllum Íslendingum, sem hann festir hönd á inn í innra herbergið, ef hann mætti fá lítið tækifæri, til að mæla við þá fáein orð á hans ástkæru móðurtungu, eða þá að veita þeim hressingu og styðja þá á allan hátt með ráðum og dáðum, þá kann ég þau skil á honum, að hann er ættaður vestan úr Dölum, en kenndi um 3ja ára skeið austur undir Eyjafjöllum og eru okkar kynni þaðan.

Hann giftist síðar danskri stúlku og fluttist af þeim ástæðum til Kaupmannahafnar. En þótt hans ævihlutverk verði unnið á erlendri grund, þá er hugur þessa trygga Íslandssonar bundinn mjög traustum böndum við fósturlandið.

Ég undraðist að heyra, að hann mundi hvert andlit, eðajafnvel hvern drátt og hreyfingu  Eyfellinga, sem hann dvaldi með þennann stutta tíma ævinnar.

En hann sagði því til skýringar, að hann ferðaðist svo oft í huganum og rifjaði þetta þá allt upp fyrir sér. Það er mikil náðargjöf að geta svifið í andanum, þótt fóturinn sé fjötraður á annarlegum slóðum og líkaminn sé neyddur til að dvelja fjarri þeim stað, sem hjartað þráir.

Þarna hitti ég nú nokkra íslendinga, sem ég hafði aldrei áður séð, og meðal þeirra var kona, sem nú var orðin hvít fyrir hærum, en mér var aðeins kunn sem lítil stúlka, augasteinn föður síns.- Þetta var nefnilega hún Bergljót litla dóttir hans Páls Ólafssonar skálds, sem flestir ljóðelskir Íslendingar munu kannast við.

Í fyrstu var ég mjög glöð að hitta dóttur þessa látna, ljúfa og bjartsýna alþýðuskálds, og ég ætlaði mér að gefa henni alla þá hlýju, sem ég gat í té látið.- En, æ! Hún Bergljót litla var orðin köld og tortryggin, af því að þræla á útigangi meðal framandi þjóðar.

Hún kærði sig sannarlega ekki um mína vináttu!

Annast sagði Ármann mér, að það lægi ekki á lausu, því að líklega mundi hann jafnvel eini Íslendingurinn, sem hún sýndi trúnað og  byndi vinskap við. Prúðmennska og ljúflyndi Ármanns gera hann að hvers manns vin.

Til hans geta allir leitað, konur jafnt sem karlar, ungir sem gamlir. Ef ég mætti mæla fyrir Íslands hönd, þá myndi ég kveðja hann heim.

Það er fátt, sem tekur hug minn fremur, en góður gamall Íslendingur, sem þráir heim, en örlögin fjötra á annarlegri grund.“

 

Sem vaktmaður á skipum Eimskipafélagsins fékk hann góð tækifæri til að hitta og tala við alla sína Íslensku vini og stofna til nýrra kynna. Margir muna eftir honum frá þessum tíma

 

Ármann hafði safnað íslenskum bókum alla tíð og átti orðið gott safn. Þegar Alþingi Íslendinga keypti hús Jóns Sigurðssonar árið 1971 þá varð þetta bókasafn eins og sjálfsagður hluti af húsinu. Fyrstu árin tók Ármann þátt í að innrétta húsið og sá um allar smáviðgerðir, seinna var hann líka eftirlitsmaður hússins og var þar því daglega. Hann var einmitt eins og venjulega við vinnusína í bókasafni Jónshúss snemma morguns hinn 4. Janúar 1978, þegar hann hneig skyndilega niður. Hann var strax fluttur á sjúkrahús,en ekki reyndist unnt að bjarga lífi hans. Séra Jóhann Hlíðar sendiráðsprestur jarðsöng Ármann hinn 8. Janúar og hann var  jarðsettur í Bispebjerg kirkjugaði í Kaupmannahöfn.

 

Á 70 ára afmæli sínu hinn 1. Janúar 1972 var Ármann sæmdur riddarakrossi hinna íslensku fálkaorðu, í þakklætisskyni fyrir hið mikla og óeigingjarna starf sem hann hafði unnið meðal Íslendinga í Danmörku.

 

Ármann lét eftir sig við andlát sitt 1978 þrjá syni og eina dóttur sem eru Kjartan, Erik, Finn og Edda, einnig fjögur barnabörn. Seinna hafa bæst við tvö barnabörn og sex barnabarnabörn. Kjartan er verkfræðingur og Erik er dýralæknir og unnu báðir við sitt fag í Kaupmannhöfn gegnum árin. Þeir eru nú komnir á eftirlaun. Finn sem lést því miður 2008, starfaði sem félagsráðgjafi á Jótlandi. Edda fékk kornung heilablæðingu sem afleiðingu af bólusetningu og dvelur í dag á stofnun í Kaupmannahöfn.

 

Heimildir:

Íslenzkir Samtíðarmenn. Höf. Stefán Bjarnason

Kennaratal á Íslandi. Höf.Ólafur Þ. Kristjánsson

Ást og Demantar.Höf.Anna Jónsdóttir

Minningargrein eftir Jónas Gíslason

Minningargrein eftir Friðjón Þórðarson

Eigin minningar. Kjartan Barkhus Kristjánsson