Lóan komin í Dali

0
1314
Ljósm: Eyþór Ingi Jónsson
Ljósm: Eyþór Ingi Jónsson
Ljósm: Eyþór Ingi Jónsson

Lóan mun vera komin í Dalina en við fengum þær upplýsingar frá Þórði Gísla Guðbjörnssyni í Miðskógi sem bæði sá og heyrði í þessum velkomna vorboða í gær 26.apríl.  Einnig mun hafa heyrst til lóunnar í Laxárdal um liðna helgi.

Heiðlóa, sem jafnan er nefnd lóa, er einkennisfugl íslenskra móa. Hún er meðalstór vaðfugl, töluvert minni en spói, allþéttvaxin og hálsstutt. Vængirnir eru fremur langir. Fullorðin lóa í sumarbúningi er svört að framan og neðan en gul og dökkflikrótt að ofan. Lóan er hraðfleygur fugl og hana ber einnig hratt yfir þegar hún hleypur um á jörðu niðri.

Sé reynt að nálgast hreiður eða unga lóunnar barmar hún sér og þykist vera vængbrotin til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Lóan er félagslynd utan varptíma.

Að áliðnu sumri fara lóurnar að safnast saman í hópa og búa sig undir brottför til vetrarheimkynna í V-Evrópu, aðallega á Írlandi, en einnig í Frakklandi, Spáni og í Portúgal, þar sem þær dvelja við strendur árósa. Lóan verpir einnig á Bretlandseyjum, Norðurlöndum og í Rússlandi.

Þú getur hlustað á þennan dásamlega fugl með því að smella hér.

Heimildir: Íslenskur fugla vísir / Jóhann Óli Hilmarsson