Fálkaungi í heimsókn í Dölum

0
1220

falkiFálkaungi gerði sig heimakominn á rafmagnsstaur í heimatúninu á Vígholtsstöðum í Laxárdal nú laust fyrir hádegi í morgun.

Fálkaunginn sat á staurnum í um það bil 10 mínútur og lét sér fátt um finnast þótt skógarþrestirnir, þúfutittlingurinn og stelkurinn gerðu aðsúg að honum í þeirri von að ná að hrekja hann á brott. Fálkinn lét að lokum tilleiðast og hóf sig til flugs til nýs áfangastaðar.

Að sögn Guðmundar A.Guðmundssonar dýravistfræðings hjá Náttúrustofnun Íslands er um nýlega fleygan fálka frá sumrinu að ræða. Guðmundur segir að ungir fálkar séu ekki ólíkir haferni á litinn, móbrúnir og flikróttir en stærðarmunur sé verulegur.

Fálkinn er varpfugl um allt land, en höfuðstöðvar hans eru á Norðausturlandi, einkum í Þingeyjarsýslum.  Myndbandið af fálkanum má sjá hér fyrir neðan.