Skólastarf í Auðarskóla að hefjast

0
1139

krakkariaudarskola2013Nú líður að þeim tíma ársins að skólar landsins fyllast aftur af lífi eftir sumarleyfi og er Auðarskóli í Dalabyggð þar engin undantekning.

Við ræddum stuttlega við Eyjólf Sturlaugsson skólastjóra um komandi skólaár og þær breytingar sem fyrir dyrum standa á skólastarfinu.

Í upphafi segir Eyjólfur að komandi skólaár sé það fimmta á stuttri ævi Auðarskóla og gert sé ráð fyrir heldur fleiri nemendum í grunnskólann en var á síðasta ári, en búast megi við 86 nemendum. Flest hafi verið í deildinni veturinn 2011 – 2012 eða 97 nemendur en Auðarskóli sé fámennur skóli og í slíkum skólum geti nemendatala sveiflast talsvert eftir því hvort barnmargar fjölskyldur flytja í eða úr sveitarfélaginu.

Meðal árgangur síðustu ára hafi verið 9,2 nemendur. Þar sem fremur stór árgangur sé að fara úr leikskóladeild í grunnskóladeild fækki nokkuð í leikskólanum en þar sé gert ráð fyrir að um 40 börn verði í vetur.

Eyjólfur segir að nokkrar framkvæmdir hafi verið í gangi sem hafi áhrif á skólastarfið, en verið sé að taka í notkun viðbyggingu við leikskólann og í haust verði endurbætt gamla sundlaugin við Dalabúð og tekin í notkun aftur eftir áratuga hlé. Með því að færa sundkennslu í Búðardal sparist verulegur akstur og tími hjá nemendum sem fer í að aka inn að Laugum í Sælingsdal. Þótt sundlaugin við Dalabúð sé lítil henti hún nokkuð vel til kennslu  og hún sé á skjólsömum stað og það að hafa sundlaug á skólasvæðinu segir Eyjólfur að skapi fjölda tækifæra, t.d. fyrir sérkennslu í sundi, sundstundir á gæslutíma og sundstundir með leikskólabörnum í litlum hópum.

Auðarskóli í Búðardal | Ljósm: audarskoli.isEyjólfur segir að í innra starfi skólans séu áherslur í raun framhald af áherslum síðasta vetrar; að innleiða ákvæði nýrrar aðalnámskrár frá 2011 í starfssemi leik- og grunnskóla. Grunnskólinn hafi verið að breyta námsmati og verið sé að auka ábyrgð nemenda á eigin námi. Því tengdu sé meðal annars áhersla á að nemendur geti farið hraðar í gegnum námsefnið og grunnskólann. Síðastliðinn vetur hafi verið um 14 nemendur sem kusu það í einni eða fleiri námsgreinum.

Eyjólfur segir að í vetur verði stigið það skref að hætta að miða hópaskiptingar nemenda eingöngu við fæðingarár. Hópaskiptingar geti nú verið eftir því hvert viðfangsefnið sé hverju sinni þótt umsjónarhópar séu jafnmargir og verið hefur. Þannig sé skipt eftir árgangi, kyni, áhuga, viðfangsefni, vali nemenda og fleira.

Í vetur verði einnig unnið með lykilhæfni nemenda ásamt því að í fyrsta skipti verði í boði svokallað áhugasviðsval hjá nemendum á elsta stigi. Á miðstigi sé skólinn að kaupa sig í verkefnið:  “Vinaliðar” en það sé verkefni sem auki fjölbreyttni í útigæslu, dragi úr einangrun nemenda og auki samheldni. Í leikskólanum verði unnið að því að þróa starfssemi í nýju rými, námskrá endurskoðuð og lykilþættir menntunar skilgreindir í starfinu. Þá verði áfram unnið að því að auka rafrænt upplýsingaflæði bæði leik- og grunnskóla.

Að lokum segir Eyjólfur foreldrasamstarf hafa gengið vel og ekki sé hægt að segja annað en að foreldrar, kennarar og starfsfólk leik-og grunnskóla eigi góð samskipti saman. Foreldrar séu mjög duglegir að sækja atburði og skemmtanir og hafi þeir verið afar kraftmiklir í fjársöfnun eldri nemenda síðastliðinn vetur og foreldrafélag Auðarskóla hafi komið að mörgum atburðum. Þá hafi allt samstarf við nærsamfélag verið ánægjulegt og gefandi.  Á  stuttri ævi Auðarskóla hafi sveitarstjórn ávalt staðið vel að uppbyggingu skólans og tekið af krafti á endurbótum á húsnæði og aðstöðu barna og fullorðina. Þar sé um langan lista að ræða þrátt fyrir að sum árin hafi verið þröngt í búi vegna kreppunnar. Skólamál í Dalabyggð hafi því verið í miklum forgangi frá sameiningu skólanna segir Eyjólfur að lokum.

Skólasetning Auðarskóla verður miðvikudaginn 21.ágúst næstkomandi en nánari upplýsingar um það ásamt starfsemi skólans má finna á vefsíðunni audarskoli.is