Meðfylgjandi myndskeið var tekið upp í Gillastaðarétt í Laxárdal þar sem Laxdælingar smöluðu saman sínu fé sem hefur haft sumardvöl á Ljárskógafjalli.
Hér á árum áður var venjan sú að menn skiptust á söngvatni og hófu upp raust sína og stofnuðu þéttskipaða réttarkóra og myndaðist þá oftar en ekki sérstök og skemmtileg stemning á milli þess að menn drógu fé sitt í dilka. Einnig segja sögur að sumir hafi einnig notað réttirnar í að gera upp óútkljáð deilumál.
Lítið bar á söngvatninu að þessu sinni, enda sunnudagur, og engir réttarkórar voru stofnaðir né deilumál útkljáð svo vitað sé.
Sjón er sögu ríkari í meðfylgjandi myndbandi.
Þann 7.september síðastliðinn var réttað í Ljárskógarétt og fékk Búðardalur.is sendar ljósmyndir frá Birni Antoni Einarssyni sem sjá má hér.
Lesendur eru hvattir til að senda ljósmyndir úr réttum Dalanna í netfangið budardalur@budardalur.is