Krummi kroppar endurskinið af vegstikunum

0
1631

Screen Shot 2016-01-18 at 22.14.00Á ferð okkar yfir Svínadal í gær rákumst við á Jón Benediktsson starfsmann Vegagerðarinnar í Búðardal þar sem hann var í óða önn að líma ný endurskinsmerki á vegstikurnar á þessum vegarkafla.

Að sögn Jóns er það ekki sökum veðra og vinda að líma þarf ný endurskinsmerki á vegstikurnar heldur vegna bíræfna þjófa sem kroppa endurskinið af og stela því.

Ekki er þó um lögreglumál að ræða, eða að minnsta kosti ekki ennþá, en starfsmenn Vegagerðarinnar í Búðardal hafa komist að því að hrafnarnir setjast á vegstikurnar og kroppa svo endurskinið af og fljúga með það í burtu.

Jón segir krumma hafa kroppað endurskin af 150 vegstikum á tæpri viku en í heildina hafi þurft að skipta um endurskin á um það bil 500 vegstikum á þessu ári vegna þessa uppátækis krumma.

Screen Shot 2016-01-18 at 22.14.08„Þetta er jú atvinnuskapandi fyrir okkur báða, mig og hrafninn“ segir Jón, en að öllu gamni slepptu sé þetta auðvitað tjón sem hlaupi á tugum þúsunda, enda kosti eitt endurskinsmerki á hverja vegstiku um það bil 150 krónur.  Að sögn Jóns hafa starfsmenn Vegagerðarinnar verið að prófa sig áfram með að líma betur niður hornin á endurskininu til þess að koma í veg fyrir að krummi nái að koma gogg sínum undir það.

Í fræðibókum um hrafninn kemur meðal annars fram að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þar semji þeir sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir. Einnig hefur verið sagt um hrafninn að hann sé bæði glysgjarn og þjófóttur.

Þess má geta að ritari þessarar fréttar gómaði krumma við þessa iðju sína nú í dag er hann átti leið um Svínadal en krummi var fljótur að forða sér þegar hann varð var við bifreiðina og því náðist ekki af honum ljósmynd að þessu sinni.