Músagangur í sveitinni

0
1257

Screen Shot 2016-01-18 at 22.12.36Hefur þú rekist á mús í haust?

Töluvert hefur verið um músagang í Dölum þetta haustið og hafa margir lagt leið sína í verslun KM-Þjónustunnar til að festa kaup á músagildrum til að reyna að góma þessa óvinsælu og óboðnu gesti þegar þeir birtast í húsakynnum manna og jafnvel í ökutækjum þeirra.

Vitað er af að minnsta kosti tveimur tilfellum þar sem mýs hafa komist inn í nýlegar bifreiðar og valdið tjóni í þeim.  

Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá myndarlega mús sem Bjarki Reynisson á Kjarlaksvöllum í Saurbæ náði mynd af á dögunum þegar hann var að ganga frá og hreinsa rúllubindivél áður en hún var sett í vetrargeymslu.

En Bjarki sagði á Facebook síðu sinni við þessa ljósmynd „þessi vélavörður var rekinn vegna slæmrar umgengni.“

Það er því full ástæða til þess að vara fólk við að hafa mikið opið út og vera á varðbergi gagnvart þessum óvinsælu nagdýrum.

Nokkrar staðreyndir um mýs:

Húsamús getur stokkið um 30cm. Hún getur hlaupið níu metra upp vegg og stokkið niður 2,4 metra án þess að meiða sig. Húsamýs eru um 5-8 cm langar fyrir utan skottið og þær vega um 15-25 g.  Húsamús líkist hagamúsinni en er minn og hefur lengra skott.

Húsamús getur troðið sér í gegnum gat sem er á stærð við smápening. Hún þrífst ágætlega ef frost fer ekki niður fyrir 10 stig. Hún getur náð sex ára aldri og eignast allt að sex unga á 50 daga fresti.

Mikill óþrifnaður fylgir músum. Þær éta 15-20 sinnum á dag og á einum mánuði innbyrða þær fimm- til tífalda eigin þyngd. Húsamúsin étur mat sem geymdur er í skýlum og geymslum og getur nagað í sundur símalínur. Á músinni finnast flær, smámaurar og önnur sníkjudýr. – vísindavefurinn