Báðar sjúkrabifreiðar í útkalli á sama tíma tvo daga í röð

0
899

sjukrabillfronturNauðsyn veru beggja sjúkrabifreiða sem nú eru til staðar í Búðardal hafa sannað sig enn á ný, en þær fengu báðar útkall í gær miðvikudag og einnig í dag fimmtudag.

í báðum tilfellum var önnur sjúkrabifreiðin í hefðbundnum sjúkraflutningi þegar bráðaútkall kom á sama tíma og því hefði verið mjög bagalegt að hafa ekki aðra sjúkrabifreið til taks að sögn sjúkraflutningamanns í Búðardal.

Bráðaútkallið sem um ræðir í dag var greint frá á mbl.is fyrr í dag en þá ók vélsleðamaður fram af hengju í Þorskafirði.
Sjá frétt mbl.is

Björgunarsveitir frá Búðardal, Hólmavík og Reykhólum voru einnig sendar á staðinn og aðstoðuðu björgunarsveitarmenn úr Björgunarsveitinni Ósk í Búðardal þyrlusveit landhelgisgæslunnar við að búa um hinn slasaða og koma honum um borð í þyrlu sem flutti hann til Reykjavíkur á sjúkrahús til aðhlynningar. Hinn slasaði mun hafa fótbrotnað illa og hlotið önnur minni sár.

Ekkert símasamband var þar sem slysið varð og þurfti hinn slasaði að skríða fótbrotinn nokkra leið til þess að geta hringt eftir aðstoð, en hann mun hafa verið einn á ferð.

Ljósmyndir frá vettvangi má sjá á heimasíðu Landhelgisgæslunnar www.lhg.is.