Rafmagnslína skotin í sundur á Kleifum

0
1012

kleifarEydís Hörn Hermannsdóttir frá Kleifum í Gilsfirði sagði á Facebook síðu sinni síðastliðinn föstudag að einhverjir óprúttnir aðilar hefðu komið heim að bænum og skotið í sundur háspennukapal sem liggur heim að bænum.

Í samtali við Eydísi sagðist hún hafa heyrt af málinu eftir að menn frá Hólmavík hafi farið að kanna málið eftir að rafmagnslaust varð hjá þeim hinu megin við heiðina. Þeir hafi þá séð ummerki sem bentu til þess að skotið hefði verið á línuna og staurinn.

Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá umræddann staur sem rafmagnslínan slitnaði frá en greinilega má sjá að kviknað hefur í staurnum.

Eydís sagði að Kleifar sem eru í botni Gilsfjarðar, væru ekki beint í alfaraleið og því augljóst að viðkomandi aðili eða aðilar sem þarna voru að verki hafi eingöngu gert þetta af skemmdarfýsn.

Eydís segist vona að í ljós komi hverjir þarna voru að verki og óskar eftir því ef einhverjir gætu hafa orðið varir við mannaferðir á þessum slóðum hafi samband við hana. Eydís sagðist ekki vita hvort frekari skemmdir hefðu verið unnar á bænum en það kæmi í ljós á næstu dögum.