50. ára starfssemi MS Búðardal 18. mars 2014

0
1115

msbudardalÁ sjötta áratug síðustu aldar urðu sveitir í Dalasýslu ærlausar langtímum saman vegna mæðiveiki. Af þeim sökum beindist hugur bænda í Dalasýslu að mjólkurframleiðslu í auknum mæli, til þess að koma skipan á þá starfsemi var Mjólkurfélag Dalamanna stofnað 28. mars 1958.

Mjólkurfélagið fór fljótlega að huga að byggingu mjókurbús í héraðinu. Samþykkti var 1960 að leita til Kaupfélags Hvammsfjarðar að  koma upp mjólkurbúi eins fljótt og auðið væri í samráði við Mjólkurfélagið. Í maí sama ár ályktaði Sýslunefnd Dalasýslu um nauðsyn þess að reisa mjólkurvinnslustöð í héraðinu. 

Fundarmenn töldu þetta vera eitt allra stærsta hagsmunamál héraðsins og skoruðu á alla þá aðila sem lagt gætu þessu  mikla velferðar-hagsmunamáli lið.

Þann 12. nóvember 1960 upplýsir Ásgeir Bjarnason, alþingismaður frá Ásgarði á fundi hjá Mjólkurfélaginu að samþykkt hafi verið í Framleiðsluráði landbúnaðrins að fela Mjólkursamsölunni í Reykjavík að byggja mjólkurbú í Búðardal og einnig í Grundarfirði.

Stjórn Mjólkursamsölunnar hafði þá þegar fallist á að taka þessar framkvæmdir að sér. Þessum tíðinum var vel fagnað af heimamönnum. Var stjórn og Stefáni Björnssyni forstjóra Mjólkursamsölunnar sérstaklega þakkað fyrir þeirra forgöngu í þessu máli.

Mjólkursamsalan hóf síðan framkvæmdir við byggingu mjólkursamlagsins 4. maí 1962. Byggingaframkvæmdum lauk og vinnslan hófst 18. mars 1964 í 450 m2 húsnæði.

Á fyrsta ári Mjólkurbúsins voru ca. 290 innleggjendur og náði svæðið yfir Skógastrandhrepp, Dalasýslu, Geiradalshrepp og Austur-Barðastrandasýslu.

Framleiðsla fyrstu árin var neyslumjólk, skyr, kasein og smjörgerð. Kaseingerð var hætt árið 1966 og vinnsla mjólkudufts hafin í staðin.

Mjólkursamlagið í Búðardal hefur tekið þátt í veigamiklum hagræðingaraðgerðum innan mjólkuriðnaðarins. Eftirfarandi sameiningarverkefni hafa átt sér stað,

1.Tekið við starfsemi Mjólkursamlagsins í Grundarfirði 1974.

2.Tekið við starfsemi Mjólkursamlagsins á  Paterksfirði 1993.

3.Tekið við hluta af starfsemi Mjólkursamlagsins í  Borganesi 1995.

4.Samvinna við Mjólkursamlag Austur Húnvetninga Blönduósi 1999

5.Tekið við starfsemi Mjólkursamlags Vestur Húnvetninga Hvammstanga 2002.

6.Samningur um rekstur Mjólkursamlags Ísfirðinga 2006.

Með sameiningu Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkursamsölunnarí Reykjavík árið 2005 var tekin sú ákvörðun að sameina alla dessertostagerð á einn stað hjá MS Búðardal. Síðar var svo ákveðið að flytja Gráðostaframleiðslu frá MS Akureyri til Búðardals.

Framleiðsluvörur frá MS Búðardal árið 2014 eru Camembert, Höfðingi, Gullostur, Brie ostar, Stóri-Dímon, Kastali, Dala-Auður, Dalahringur, Ljótur, Gráðaostur, Cheddar, Havarti krydd, Feta ostur, rifinn piparostur og gráðaostur ásamt LGG+ sem styrkir mótstöðuaflið í líkamanum og Benecol sem lækkar kólesteról með hjálp plöntustanolestera.

Mjólkurbústjóra frá upphafi eru,

  • Lauritz Jörgensen 1964-1966
  • Eiríkur Þorkelsson 1966-1970
  • Heimir Lárusson 1970-1977
  • Sigurður Rúnar Friðjónsson 1977-2007
  • Sævar Hjaltason  2007-2011
  • Lúðvík Hermannsson frá 2011

MS fundur

Reynsla og þekking, ásamt metnaði og frumkvæði eru þættir sem hafa gert það að verkum að MS Búðardal skipar sér í forystusveit á íslenskum matvælamarkaði með framleiðslu á margvíslegum gæðavörum. Undirstaða framleiðslunnar er mjólkin, hin hreina íslenska náttúruafurð. MS Búðardal uppfyllir ýtrustu kröfur sem gerðar eru til mjólkuriðnaðar nú á dögum og hefur meðal annars útflutningsleyfi á Evrópumarkað.

Allt frá því að mjólkurframleiðsla hófst í Búðardal hefur verið lagt kapp á að starfsemin sé í sátt við náttúruna og umhverfið og gæðastarfi fyrirtækisins lýkur aldrei. Þótt áherslur og starfsaðferðir breytist er stefnan óbreytt, þ.e.eins mikil gæði og möguleg eru í framleiðslu og þjónustu á hverjum tíma.

Á 2014 eru 39 framleiðendur í Breiðarfjarðardeild sem nær yfir svæði frá norðanverðu Snæfellsnesi, Dalasýslu og öllum Vestfjörðum.

MS FundurÍ dag 18. mars 2014 var aðalfundur í Breiðarfjarðardeild Auðhumlu svf. haldinn að Dalakoti Búðardal. Á fundinum fóru Egill Sigurðsson, stjórnarformaður Auðhumlu, Einar Sigurðsson, forstjóri MS og Lúðvík Hermannsson,  mjólkurbústjóri MS Búðardal yfir starfsemina árið 2013.

Nýr formaður Breiðarfjarðardeildar var kosinn Þorgrímur E. Guðbjartsson, Erpsstöðum. Margrét Guðbjartsdóttir og Ásmundur Jóhannesson frá Miklagarði tóku við viðurkenning fyrir framleiðslu á úrvalsmjólk árið 2013.

Samantekt: Sævar Hjaltson (2009) og Elísabet Svansdóttir (2014).