Sjúkraflutningamenn í Búðardal safna fyrir Lúkasi

0
1026

lukasSjúkraflutningamenn í Búðardal með aðstoð Lionsklúbbs Búðardals hafa nú hafið söfnun fyrir sjálfvirku hjartahnoðtæki til að hafa í sjúkrabíl í Búðardal.

Starfsmenn sjúkraflutninga Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi hafa staðið fyrir sambærilegri söfnun undanfarnar vikur með góðum árangri.

Tæki af þessari gerð hefur hlotið nafnið Lúkas, en þar er verið að vísa í að með notkun þess jafngildir það viðbótarmanni við endurlífgun. Tækið sér algjörlega um hjartahnoð án þess að þreytast eða vera fyrir öðrum við endurlífgunina. Það kæmi því í mjög góðar þarfir hér á okkar svæði þar sem flutningsleiðir eru langar. Þá verður einnig hægt að nýta það á heilsugæslu ef hjartastopp verður þar.

Sjúkraflutningamenn í Búðardal munu nú leita til fyrirtækja, stofnana, félaga og einstaklinga með ósk um styrki til kaupa á hjartahnoðtæki og vonast eftir góðum undirtektum. Tækið kostar um tvær og hálfa milljón króna.

Lúkas er kominn í sjúkrabíla á nokkrum stöðum á landinu eða á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og Suðurnesjum og svo núna á Akranesi.  Á öllum þessum stöðum hafa fyrirtæki, félög og einstaklingar lagt fram fé til kaupanna.

Reikningsnúmer söfnunarinnar er 0312-13-110023 og kennitalan 530586-2359.

Aðstandendur söfnunarinnar vonast eftir góðum undirtektum og minna á að margt smátt gerir eitt stórt.

Stofnuð hefur verið Facebook síða um söfnunina en hana má finna hér.

Sjá má stutt upplýsingamyndband um Lúkas hér fyrir neðan: