Leifsbúð í Búðardal opnar á ný

0
2753

leifsbudSíðastliðinn laugardag 12.apríl var opnunarhátíð í Leifsbúð í Búðardal en það voru þær Valdís Gunnarsdóttir og Ásdís Kr.Melsted sem buðu til opnunarinnar en þær eru nýju rekstraraðilar menningar og kaffihússins Leifsbúðar.

Þær Valdís og Ásdís tóku við rekstrinum af Skagfirðingnum Freyju Ólafsdóttur sem meðal annars rak Leifsbúð í fjögur ár en hún hlaut einnig titilinn Dalamaður ársins árið 2012 hér á Búðardalur.is.

Leifsbúð er staðsett við smábátabryggjuna í Búðardal eða við hliðina á gamla sláturhúsinu í Búðardal. Leifsbúð er yfir 100 ára gamalt hús en þar hefur ýmis starfsemi verið í gegnum tíðina en lengst af var þar Kaupfélag Hvammsfjarðar enda húsið ennþá kallað gamla Kaupfélagið af heimafólki.

Í upphafi eða um árið 1900 reisti Bogi kaupmaður húsið og 1911 kaupir Kaupfélag Hvammsfjarðar húsið undir starfsemi sína og reisir pakkhúsið.

Eftir að Kaupfélagið flytur starfssemi sína var ýmiskonar starfssemi í húsinu, þar á meðal saumastofa sem saumaði mokkafatnað, verkstæði og kjötpokaframleiðsla. Einnig er vitað að starfsmenn sláturhússins gistu um tíma í húsinu.

Opnunartími nýja menningar og kaffihúss Dalamanna er frá 12:00 til klukkan 18:00 alla daga ársins.

Aðrir opnunartímar eru eftir samkomulagi.