Þrifu öll föt og farangur ferðafólksins

0
871

thrifuollfotUmhyggjusemin, hjálpsemin og góðvildin á sér engin landamæri þegar kemur að þeim hjónum Brynjólfi Gunnarssyni starfsmanni KM-Þjónustunnar í Búðardal og Fanneyju Kristjánsdóttur tækniteiknara en þau búa og starfa í Búðardal.

Eins og við sögðum frá hér á laugardag varð erlent par fyrir því að velta bifreið sinni á Ódrjugshálsi við Djúpafjörð síðastliðið föstudagskvöld.  Aðkoman var ljót en bílaleigubifreiðin sem parið var á, hafnaði á hvolfi ofan í á sem þar er, en parið slapp með skrámur. 

Hins vegar dreifðist farangur fólksins um víðan völl þegar bifreiðin valt og allur fatnaður sem fólkið hafði meðferðis blotnaði og annað dót blotnaði eða varð skítugt.

Það kom í hlut Brynjólfs að vera kallaður út á dráttarbifreið frá KM-Þjónustunni í Búðardal til þess að sækja bifreiðina aðfaranótt laugardagsins 14.júní. Aðspurður sagðist Brynjólfur hafa boðið Fanneyju konu sinni með í útkallið og voru þau ekki komin heim fyrr en undir morgun.

Hjá flestum þá hefði útkallinu þar með verið lokið og menn verið fegnir að geta drifið sig heim og lagst til hvílu. En því var ekki þannig háttað hjá Brynjólfi og Fanneyju.

Uppá sitt einsdæmi ákváðu Brynjólfur og Fanney að taka saman allan fatnað og allt dót ferðamannanna og bjarga því frá skemmdum og koma því í samt lag aftur.

Þau tóku því öll föt ferðafólksins og settu í þvottavél og síðan þurrkara og gengu frá í ferðatöskuna. Annar farangur og búnaður var flokkaður þvegin og þurrkaður.

Þegar ferðafólkið kom síðan í Búðardal á sunnudag á öðrum bílaleigubíl til þess að sækja farangur sinn urðu þau heldur betur hissa. Allur fatnaður nýþveginn og saman brotin og annar farangur útlítandi eins og ekkert hefði komið uppá.

Ferðalangarnir urðu heldur betur hissa þegar þau sáu farangur sinn og þegar þau voru spurð hvort þau ætluðu að halda ferðalagi sínu áfram um Ísland var svarið…

“Já, við ætlum að gera það og það er ykkur að þakka”.