Fjölbragðasýning Hymnodiu í Búðardal

0
897

HymnodiaUppátækjum Kammerkórsins Hymnodiu frá Akureyri eru engin takmörk sett.

Nú ætlar kórinn að heimsækja æskuslóðir kórstjórans, Eyþórs Inga, með fjölbragðadagskrá. Kórinn syngur, spilar á alls kyns skrýtin og skemmtileg hljóðfæri, hefur uppi glens og grín, leikræn tilþrif og jafnvel dans ef vel liggur á. Brjálaði barítóninn, drynjandi geðlæknirinn, fljúgandi Hollendingurinn, sænski grunnskólakennarinn, lagvissi lögfræðingurinn,

tölvuóði trompetleikarinn og margir fleiri koma fram. 

Meðal hljóðfæra sem kórinn notar eru:

Gömul og beygluð bárujárnsplata, tekin af gömlum útihúsum í Eyjafjarðarsveit.

Hertrompet sem fannst á götumarkaði í Frakklandi

Strákústur Sveins kirkjuvarðar í Akureyrarkirkju

Blómavasar og vínflöskur

Þurrkuð ávaxtahýði frá Tyrklandi

Blásturshljóðfæri eins og sauðaleggjaflautur, piccolo, tinflauta, orgelpípur og ocarina

Strengjahljóðfærin psaltari, dulcimer, strumstick, charango, fiðla, gítar, bouzouki og rafbassi

Allskonar slagverkshljóðfæri. Græjutaska kórstjórans.

Tónlistin er afar fjölbreytt, þjóðlög frá öllum heimshornum; skosk drykkjuvísa, mexíkóskur baráttusöngur, madrígal um kakkalakka, sænskur dansleikur, finnskur polki, enskt ástarljóð, rússneskt vögguljóð, kvöldsöngur fiska og margt fleira.

Kórinn flutti þessa efnisskrá á 9 tónleikum á NA-landi í október og nóvember 2013.  Meðal annars tvisvar fyrir fullu húsi á Akureyri.

Tónleikarnir verða í Dalabúð í Búðardal, laugardaginn 13. september kl. 20

Aðgangseyrir er 2000 kr. Barinn verður opinn, Ásdís Melsted (Leifsbúð) mun sjá til þess að allir fái drykki við sitt hæfi.
Umsagnir tónleikagesta frá Ólafsfirði og Akureyri:

Þessi fjölbragðasýning Hymnodiu lætur engan ósnortinn. Fyrst er það náttúrlega söngurinn, raddirnar, stemmingin, ómurinn. Svo kemur fjölbreytnin, heimshornin og stílarnir. Og svo uppátækin, leikurinn, dótið. Og gleðin. Og að láta sér detta þetta í hug.

– Fyrir fullum sal af fólki hljómaði allt frá fiskasöng og jóðli yfir í að syngja og spinna alla leið inn í hjartarótina. Alla leið! Takk fyrir mig.

Sverrir Páll Erlendsson, facebook

Kæru söngfuglar, takk fyrir komuna í Tjarnarborg! Með einstökum sönghæfileikum, sönggleði og ótrúlegu hugmyndaríki tekst ykkur ávallt að toppa, koma á óvart og eins og svo oft áður á tónleikum ykkar gleymir maður bókstaflega stund og stað við að hlusta og horfa. Þessir tónleikar eru sannkölluð Fjölbragðasýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Takk enn og aftur fyrir ógleymanlega kvöldstund!!!

 

Kristín Trampe, facebook

Ekki brást Hymnodia áheyrendum sínum í Hofi í kvöld. Þar var ófafjölbreytt prógramm flutt af þeirri næmni og smekkvísi sem skilur í milli þess, hvað er músík og hvað er það ekki. Þar er líka betri ballans á milli radda en gerist í flestum blönduðum kórum. En úrslitum ræður afburða stjórn Eyþórs Inga, sem þó virðist svo átakalítil, en gerir kröfur sem kórinn er fullkomlega fær um að uppfylla. Til hamingju og takk fyrir, Hymnodía!

Erlingur Sigurðarson, facebook

Hlökkum til að sjá ykkur!

HymnodiaFacebook síða Hymnodiu