Safna fyrir stafrænum lesara

0
962

image_2-333x250Sjúkraflutningamenn í Búðardal, með aðstoð Lionsklúbbsins í Búðardal og Búðardalsdeild Rauða kross Íslands, hafa hrundið af stað söfnun fyrir stafrænum lesara fyrir röntgentæki á Heilsugæslustöðina í Búðardal.

Verðmæti umrædds tækis er um 2,4 milljónir króna fyrir utan virðisaukaskatt.

Í sjóði frá fyrri söfnun eru rúmar 700.000 krónur og Lionsklúbburinn hefur lagt til 300.000 í söfnunina.

Nú er leitað til fyrirtækja, stofnana, félaga og einstaklinga með ósk um styrki til kaupa á umræddu tæki.   Söfnunarreikningur fyrir tækinu er eftirfarandi: 312-13-110023. Kt: 530586-2359.

Tilkynnt var um upphaf söfnunarinnar á 112 deginum en þá stóðu viðbragðsaðilar saman að opnu húsi í húsnæði Björgunarsveitarinnar Ósk í Búðardal.

Á Heilsugæslustöðinni í Búðardal er röntgentæki frá árinu 1997 sem hefur reynst vel og er í góðu lagi. Með því að fá stafrænan lesara við tækið fást stafrænar myndir í stað mynda á röntgenfilmur.

Stafrænn búnaður er nú þegar kominn á flesta staði þar sem teknar eru röntgenmyndir enda hefur hann umtalsverða kosti. Myndrannsóknin er tilbúin á skömmum tíma og auðvelt að senda rafrænt til röntgenlæknis eða sérfræðings.

Framköllun verður óþörf en hún er kostnaðarsöm. Ekki þarf lengur að notast við röntgenfilmur sem eru orðnar mjög dýrar auk þess sem æ erfiðara er að fá réttar filmur.

Í Búðardal eru röntgenmyndir fyrst og fremst teknar í bráðatilfellum eins og til að útiloka eða staðfesta beinbrot þegar slys verða. Til þess að tryggja að slíkt verði áfram hægt og ekki þurfi að senda öll slík tilfelli um langan veg er mikilvægt að koma upp þeim búnaði sem hér um ræðir.