
Dalaskáldið Björn Stefán Guðmundsson hefur gefið út nýja ljóðabók og ber hún heitið Vinur minn missti vitið. Þetta er önnur ljóðabók Björns en sú fyrsta ber heitið Sæll dagur.Björn er löngu þekktur fyrir ljóðagerð sína og kveðskap og hafa allmörg ljóðin hans birst í blöðum ,tímaritum og á hljómdiskum.Efni ljóða bókarinnar nýju eru sem fyrr sótt til æskustöðvanna á Skarðsströnd,heimaslóðanna í Búðardal,náttúruna og þess samfélags í Dölum sem Björn hefur lifað og hrærst í.

Ljóðið og lagið “Vinur minn missti vitið” varð landsfrægt fyrir meir en 30 árum.Nágranni og góður vinur Björns, Bjarni Hjartarson frá Vífilsdal, samdi lagið og Pálmi Gunnarsson var fenginn til að syngja það.Heitið og eða yrkisefnið vakti sérstaka athygli. Það þótti óvenjulegt við létt og leikandi dægurlag.Rás 2 hafði verið starfrækt um nokkurra missera skeið og þar var það oft leikið.

Ímynd þín
Eitt sumar með sólskin í hjarta
og signdi okkur veröldin bjarta
hver stund var sem blíðasta brosið
hvert blóm eins og ímynd þín.
Á sælunnar stund birtust sorgir
það seiddu þig skýjanna borgir
og allt sem við áttum og sögðum
að eilífu marklaust var.
Því sárt er að bíða og sakna
um sumarið minningar vakna
ég finn að þú ert hérna ennþá
en aldrei á leið til mín.
Það glitrar um víkur og voga
þá vonir í birtunni loga
hver stund er sem blíðasta brosið
hvert blóm eins og ímynd þín.
BSG
Þrösturinn
Öll eru ljóð þín unaðsrík
ég þig hljóður dái.
Stundar – rjóður – rómantík
litli – góði – snáði.
BSG
Glaður
Bakka slétta rennur létt,
lipri netti folinn.
Vel er settur vinnur rétt,
virðist glettinn þolinn
BSG
Ávarp
Ágæta nótt
með ótöldu draumana þína.
Engill við sængina mína
fegursta nótt.
Töfrandi nótt
árdagsljós ilmandi flæðir
einmana vonina glæðir
mildasta nótt.
Heiðríka nótt
skartið sem fagnandi friður
frjáls eins og lækjarins niður
lifandi nótt.
Blíðasta nótt
landið að grænka og gróa
gaukurinn trítlar um móa
gefandi nótt.
Blessaða nótt
segðu mér nú hvers ég sakna
segðu það þegar ég vakna
heillandi nótt.
Ókunna nótt
stundanna fegurð mun fanga
sem fyllir upp dagana langa
eilífa nótt.
BSG