Alvarlegt umferðarslys milli Erpsstaða og Fellsenda

0
1336

slys6116_1Alvarlegt umferðarslys varð í gær í Miðdölum á vegarkaflanum milli Erpsstaða og Fellsenda í Dölum um klukkan eitt í gær. Um var að ræða vöruflutningabifreið með langan flutningavagn sem innihélt tóm fiskikör.

Allt tiltækt björgunarlið í Dölum ásamt slökkviliði Borgarfjarðar var kallað á staðinn ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti ökumann á slysadeild Landspítala í Fossvogi en ökumaður var einn i bifreiðinni. Fram kemur á Facebooksíðu lögreglunnar á Vesturlandi að tekið hafi um tvær klukkustundir að ná ökumanni út úr flakinu.

slys6116_2Þá kemur fram á fréttavefnum Skessuhorn.is að erfiðar aðstæður hafi verið á slysstað þar sem veður hafi verið vont og gengið hafi á með öflugum vindhviðum ásamt því að gríðarleg hálka hafi verið á slysstað. Umferð var beint um hjáleið á meðan björgunaraðgerðir stóðu yfir.

Þá kemur fram á vefsíðu KM þjónustunnar í Búðardal að loka hafi þurft verkstæð þeirra vegna slyssins en allir starfsmenn verkstæðis KM þjónustunnar voru boðaðir á slysstað. Fjórir á vegum Slökkviliðs Dalabyggðar og einn til að sinna dráttarbílaþjónustu.

slys6116_3Á fréttavef mbl.is var greint frá því í gærkvöldi að ökumaður væri talsvert slasaður en vakandi og líðan hans eftir atvikum.

Skessuhorn.is greinir einnig frá því að annað umferðaróhapp hafi orðið á sömu slóðum í gærmorgun þar sem bifreið hafi verið ekið á brúarhandrið við bæinn Fellsenda. Mun bifreiðin hafa skemmst talsvert en ökumaður hafi sloppið að mestu ómeiddur.