Gunnar Einarsson

0
1945
Fyrsti tenór í Leikbræðrum

Gunnar Einarsson var fyrsti tenór. Hann gekk til liðs við félaga sína í Leikbræðrum árið 1945 en þá var hann einnig virkur meðlimur í Breiðfirðingakórnum.

9.október 1997 – minningargrein

Gunnar Einarsson „Hvar söngur ómar sestu glaður, þar syngur enginn vondur maður.“

Þessi orð þýska skáldsins Göthes koma ósjálfrátt upp í hugann þegar minnst er með nokkrum orðum Gunnars Einarssonar „leikbróður“ og vinar. Af mörgu er að taka þar sem náin vinátta okkar Gunnars stóð í meira en hálfa öld.

Það var góður liðsmaður sem gekk í áhöfn Breiðfirðingakórsins er Gunnar Einarsson kom í kórinn árið 1945, þá aðeins 19 ára gamall. Þar fann hann upphafið að gylltum örlagaþræði, sagði hann sjálfur, svo tíðrætt varð honum um hvað það hefði verið mikið gæfuspor þegar hann gekk til liðs við þann félagsskap. Innan vébanda kórsins eignaðist hann félaga sem síðar kölluðu sig kvartettinn Leikbræður. Við sem fyrir vorum í kórnum heyrðum strax að þarna var komin glansandi rödd sem brá blátærri birtu á tenórrödd kórsins þótt ungur væri.

Áður en Gunnar kom í Breiðfirðingakórinn höfðum við þrír kórfélagar, allir Dalamenn, rætt það okkar í milli að gaman væri að stofna kvartett og reyna að feta í fótspor MA-kvartettsins en ljóminn af söng þeirra félaga var ríkjandi í huga okkar. Fyrsta tenórinn vantaði okkur og það varð Gunnar Einarsson. Í söngför Breiðfirðingakórsins um byggðir Breiðafjarðarbyggðar sumarið 1945 var svo stofnaður kvartettinn Leikbræður. Hófst nú skemmtilegur söngferill sem stóð með stuttum hléum í tíu ár, til 1955. Frá þessum árum er margs að minnast. Á félagsskapinn bar aldrei skugga og var samstaðan með eindæmum góð. Bræðralag réð þar ríkjum eins og svo oft meðal þeirra sem ganga til liðs við hina töfrandi sönggyðju. Við vorum stoltir af 1. tenór, rödd Gunnars var óbrigðul og stöðug og virtist ekkert geta raskað henni. Þetta skapaði okkur hinum mikið öryggi, ekki síst þegar á söngpallinn var komið. Alltaf mátti treysta röddinni hans og við minnumst þess ekki á öllum söngferli kvartettsins að lag félli, sem kallað er, eða yrði óhreint en það var Gunnari að þakka öðrum fremur sem hafði frábæra raddhæð og næmt tóneyra. Röddin var jafntær, hvort sem sungið var veikt eða sterkt.

Gunnar var líkamlega sterkbyggður og segja má að söngrödd hans hafi verið það einnig. Röddin var alltaf í formi, ætíð var hann tilbúinn ef flautað var til leiks, hvernig sem á stóð, jafnvel þótt hann kæmi svefnvana af næturvakt í lögreglunni á æfingar. En Gunnar söng ekki bara í kvartettinum Leikbræðrum. Hann söng í fjölmörgum kórum, svo sem Karlakór Reykjavíkur, Karlakórnum Stefni, Söngsveitinni Fílharmóníu, Þjóðleikhúskórnum og að sjálfsögðu Lögreglukórnum, með samstarfsmönnum sínum, svo og fleiri kórum. Hann var umsetinn af söngstjórum kóranna, allir vildu hafa í sínum röðum þessa einstöku náttúrurödd. Gunnar lærði ekki að syngja nema lítillega í einkatímum. Sönghæfni hans var meðfædd guðsgjöf. Gegnum árin söng hann einsöng við fjölmörg tækifæri, á skemmtisamkomum, við kirkjuathafnir og víðar og hlaut þá jafnan verðskuldað lof fyrir. Leitt er til þess að vita að lítið sem ekkert er til af upptökum með rödd hans einni. Hann tranaði sér ekki fram og upptökutæki fyrri tíma voru óvíða tiltæk.

Af allri þessari söngstarfsemi eignaðist Gunnar marga góða vini og gildan sjóð góðra minninga. Mest af öllu mat hann þó Leikbræður og þátttöku sína þar. Kvartettinn var honum til hinstu stundar eins og angandi gróðurreitur sem aldrei fölnaði. Það gladdi hann því mjög þegar upptökur með söng kvartettsins voru endurútgefnar fyrir fáeinum árum.

Nokkrum dögum áður en Gunnar lést, þá helsjúkur orðinn, hringdi hann til okkar félaganna tveggja, sem rita þessar línur, og minnti okkur á að daginn eftir yrði útvarpsþáttur með Leikbræðrum, við skyldum muna eftir að hlusta. Svo kær var honum þessi minning.

Við þökkum honum hversu mikils hann mat kynni okkar og þökkum honum fyrir samfylgdina á vængjum söngsins um árabil. Þessi fáu minningarorð um vin okkar Gunnar Einarsson eru einungis helguð söngnum sem var svo ríkur þáttur í lífi hans og gaf honum og öðrum svo fjölmargar gleðistundir. Tveir félagar úr kvartettinum Leikbræðrum eru nú fallnir í valinn; Torfi Magnússon, 1. bassi, lést árið 1990, 71 árs að aldri, og nú Gunnar Einarsson, 1. tenór, einnig 71 árs að aldri. Ljúft er að minnast þeirra beggja meðan við tveir sem eftir lifum njótum minninganna við kvöldsólareld. Við kveðjum Gunnar Einarsson með þakklæti fyrir tryggð og vináttu í meira en hálfa öld, svo og fyrir sönginn og samverustundir allar. Aðstandendum öllum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Ástvaldur Magnússon,

Friðjón Þórðarson.