Leikbræður sívinsælir gleðigjafar

0
1433

Morgunblaðið 21.desember 1994

SÖNGKVARTETTINN Leikbræður var stofnaður árið 1945 og naut fádæma vinsælda fyrir vandaðan samsöng og skemmtilegt lagaval sitt. Kvartettinn var skipaður þeim Gunnari Einarssyni fyrsta tenór, Ástvaldi Magnússyni öðrum tenór, Torfa Magnússyni fyrsta bassa og Friðjóni Þórðarsyni öðrum bassa, en hann samdi líka marga af textum kvartettsins.

Árið 1977 safnaði Svavar Gests þeim upptökum sem til voru af lögum kvartettsins og gaf út á hæggengri hljómplötu. Þeir annmarkar voru á útgáfunni að mörg laganna voru afrituð af illa förnum hljómplötum eða lakkplötum sem ekki var auðvelt að lagfæra og var því hljómurinn ekki eins og best var á kosið. Platan var gefin út í tveimur upplögum sem eru fyrir margt löngu uppseld.

Nú hefur Spor hf. dustað rykið af þessum gömlu upptökum, látið hreinsa og lagfæra þær með nýrri tækni og gefið þær út á snældu. Á næsta ári verða þær síðan gefnar út á geisladisk í tilefni af því að þá verða 50 ár liðin síðan Leikbræður byrjuðu fyrst að syngja saman.

„Við urðum til úr Breiðfirðingakórnum,“ segir Friðjón. „Reyndar ekki ég,“ segir þá Gunnar og brosir. „Ég er bara frá Reykjavík.“ Varla er hægt að hugsa sér kjörnari aðstæður til að stofna söngsveit. Ævintýrið hófst á því að Friðjón, Gunnar, Ástvaldur og Torfi, sem lést fyrir tveimur árum, byrjuðu að syngja saman á sólskinsbjartri Jónsmessunótt, er þeir voru á siglingu út í Flatey á Breiðafirði með Breiðfirðingakórnum.

Næstu tíu árin höfðu Leikbræður í nógu að snúast. Þeir sungu inn á tvær hljómplötur, voru ómissandi á fjölmörgum skemmtunum í Reykjavík, þar á meðal Breiðfirðingafélagsins, og fóru í söngferðalög um landið. Ekki kom að sök þótt það væri án undirleikara, því Friðjón gaf þeim þá bara tóninn með tónkvísl. „Við treystum honum fullkomlega til þess,“ segja Gunnar og Ástvaldur.

Líklega náðu Leikbræður hátindi ferils síns með tónleikum í Gamla bíói árið 1952 sem enn eru í minnum hafðir. Fyrir þá fengu Leikbræður frábæra dóma. Í einum þeirra sagði: „Söngur þeirra félaga er geðþekkur og þýður og ávann sér strax hylli áheyrenda.“

En kvartettinn varð aldrei eldri en tíu ára, því meðlimir hans höfðu öðrum hnöppum að hneppa. Æfingar og skemmtanir tóku einfaldlega of mikinn tíma. Ekki féllu þeir þó í gleymsku, því árið 1977 hóf Svavar Gests að safna upptökum á hljómplötu eins og áður segir. „Líklega hefði aldrei getað af henni orðið,“ segir Friðjón, „ef gamall vinur okkar, Helgi Einarsson húsgagnasmíðameistari, hefði ekki tekið upp æfingu með okkur á segulbandstæki sem hann hafði fengið sér. Þegar til hans var leitað átti hann spóluna ennþá og þannig fékk Svavar sex lög upp í hendurnar og var kominn með efni í hljómplötu.“

Árið 1990 gáfu þeir félagar úr Leikbræðrum út 40 laga bók með kvartettútsetningum og er hún líklega sú eina sinnar tegundar hérlendis með nótum fyrir píanóundirleik. Eins og allt annað sem frá Leikbræðrum kemur seldist bókin upp, utan fá eintök sem eru í vörslu Ástvalds. „Ég var einmitt að selja eina bók í morgun,“ segir hann. „Kaupandinn var Íslendingur í Lúxemborg sem ætlar að stofna kvartett fyrir þorrablót sem verður haldið þar.“

En hver var galdurinn á bak við velgengnina? „Við gættum þess að syngja aldrei of mikið,“ segir Gunnar. „Jafnvel bestu söngvarar geta eyðilagt fyrir sér með því.“

Annars segja Leikbræður að þeir hafi aldrei gert þetta peninganna vegna, heldur fyrst og fremst ánægjunnar. „Það hringdi í mig maður í morgum,“ segir Friðjón. „Hann sagði við mig að við værum miklir lánsmenn því við hefðum glatt svo marga með okkar söng,“ segir Friðjón. Leikbræður hans kinka kolli og ráða má af svip þeirra að þeir eru honum hjartanlega sammála.

Ef að líkum lætur á ævintýrið sem hófst á sólskinsbjartri Jónsmessunótt á siglingu á Breiðafirði eftir að veita enn fleiri ánægju í svartasta skammdeginu sem nú er í nánd.

Heimild: Morgunblaðið 21.desember 1994.

GUNNAR Einarsson, Ástvaldur Magnússon og Friðjón Þórðarson orna sér enn við minningar liðinna ára með Leikbræðrum.

LEIKBRÆÐUR þegar þeir voru upp á sitt besta, frá vinstri: Gunnar Einarsson, Ástvaldur Magnússon, Torfi Magnússon og Friðjón Þórðarson.