Komst í hann krappann á Holtavörðuheiði

0
8391
MAN vöruflutningabifreið Hermanns
MAN vöruflutningabifreið Hermanns

Dalamaðurinn og Laxdælingurinn Hermann Bjarnason lenti í honum kröppum í gærmorgun þegar hann var á leið upp á Holtavörðuheiði á vöruflutningabifreið frá vöruflutningafyrirtækinu Vörumiðlun þar sem Hermann starfar.

Hermann var á leiðinni með 5 tonn af kjöti frá Hvammstanga til Reykjavíkur þegar flutningakassi vörubifreiðarinnar losnaði af festingun sínum. Talsvert hvasst var á þessum slóðum í gær og um tíma fóru vindhviður upp í um það bil 30m/s.

MAN vöruflutningabifreið Hermanns
MAN vöruflutningabifreið Hermanns

Þegar Hermann var í brekkunni móts við Grænumýrartungu í Hrútafirði tók hann eftir því að flutningakassi vörubifreiðarinnar hafði losnað af festingum sínum eins og fyrr segir og var kassinn við það að falla á veginn. Hermann kallaði til aðstoð og komu kranabifreiðar á staðinn og aðstoðuðu við að koma kassanum aftur á sinn stað.

Áður en kranabifreiðarnar komu á vettvang hafði aðilinn sem sér um snjómokstur á Holtavörðuheiði komið Hermanni til aðstoðar og náðu þeir að festa kassann með böndum og þurfti Hermann að bakka vörubifreiðinni um það bil hálfan kílómeter þar sem næsta útskot var.

Að sögn Hermanns tóku ökumenn sem leið áttu framhjá þá áhættu að aka nánast undir flutningakassann sem hékk einungis á tveimur boltum, áður en aðstoð barst og kassanum var komið á sinn stað.

Sem betur fór urðu engin slys á fólki og tjón varð minni háttar miðað við það hvað hefði getað orðið.

Góð vísa er víst aldrei of oft kveðin, förum varlega í umferðinni.