Eitt vinsælasta íslenska dægurlag áttunda áratugarins er án efa lagið Heim í Búðardal við texta Þorsteins Eggertssonar textahöfundar og skálds. Á svipuðum tíma kom Búðardalur einnig fyrir í dægurlaginu Síðasta sjóferðin með Brimkló en þar var Þorsteinn Eggertsson einnig höfundur texta.

Eins og fram hefur komið hér á vefnum var Þorsteinn í sveit á unglingsárum sínum á bænum Saurum í Laxárdal í Dölum hjá þeim bræðrum Hermanni Jóhannessyni og Benedikt Jóhannessyni. Búðardalur hefur hugsanlega verið talsvert ofarlega í huga Þorsteins við textasmíðarnar sökum þess.
Eitt heitasta og vinsælasta dægurlag dagsins í dag heitir Nei Nei með tónlistarfólki sem kallar sig Áttan. Í texta lagsins kemur nafn Búðardals fyrir en þar segir meðal annars „…gætum farið hvert sem er, Akranes í Búðardal, væri til í að búa þar, með þér“
Það er alltaf jákvætt þegar íslenskt tónlistarfólk semur texta á íslensku og ekki spillir fyrir þegar Búðardalur er notaður til að fullkomna textasmíðina líkt og Þorsteinn Eggertsson gerði svo eftirminnilega í sinni textasmíð hér um árið.
Hér fyrir neðan má hlusta á lagið og horfa á myndbandið við það.