Sauðburður er hafinn í Dölum en föstudagsmorguninn 31.mars fæddist falleg einlembings gimbur á Hróðnýjarstöðum í Laxárdal. Bændur á Hróðnýjarstöðum eru hjónin Drífa Friðgeirsdóttir og Einar Jónsson. Hróðnýjarstaðir eru eitt stærsta fjárbú í Dölum með ríflega 1.000 fjár.
Fram kemur á Fésbókarsíðu þeirra hjóna að þau hafi orðið mjög hissa þegar þau komu í fjárhúsin í gærmorgun og á móti þeim tók stór og falleg lambadrottning en sauðburður á ekki að hefjast fyrr en í maí mánuði og stendur venjulega sem hæst um miðjan maí.

Það kemur alltaf fyrir að einstaka ær beri í mars og apríl af slysni, sem eru þá kallaðar fyrirmálsær.
Það er alltaf gaman þegar fréttist af fyrstu lömbunum koma í heiminn í fjárhúsum landsins en það er merki um það að vorið sé á næsta leiti.