„Bestu kveðjur til allra Dalamanna sem tóku svo vel á móti okkur“

0
3588

Síðari dagur í opinberri heimsókn forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar og eiginkonu hans Elizu Reid var bjartur og fallegur eftir að sól reis á himni en var gríðarlega kaldur. Frostið þennan dag fór á völdum stöðum niður í -14° gráður og beit í fingur og kinnar.

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid í Dalabúð 7.desember 2017

Dagurinn hófst á því að forsetinn og fylgdarlið stöðvaði við Staðarhól í Saurbæ stutta stund í morgunmyrkrinu. Að því loknu var ekið sem leið lá að Skarði á Skarðsströnd þar sem forsetanum og forsetafrúnni var boðið inn í Skarðskirkju þar sem Kristinn Jónsson, Þórunn Hilmarsdóttir og Bogi Kristinsson fóru yfir sögu Skarðskirkju og Skarðs.

Þegar bærinn á Skarði kom í ljós blöstu við bæjarljósin og fallega upplýst Skarðskirkja. Eftir því var hinsvegar tekið þegar bílalest forseta kom að afleggjaranum að Skarði og beygði upp heimreiðina að Skarði sló öllu rafmagni út á bænum og þar með talið kirkjunni svo eina ljósið sem sást voru friðarkerti sem tendruð höfðu verið fyrir utan kirkjuna. Heimafólki tókst hins vegar að koma rafmagni aftur á áður en bílalest forseta var komin heim að bænum. Að lokinni heimsókn að Skarði var ekið í gegnum Klofning þar sem stutt stopp var gert sunnan megin við skarðið.

Kirkjan á Staðarfelli 7.desember 2017

Síðan var ekið sem leið lá að Staðarfelli og stutt stopp gert í kirkjunni þar og á hlaðinu við gamla húsmæðraskólann. Frá Staðarfelli var ekið eftir Fellsströndinni inn í Hvammssveit og tekið var stutt stopp við Krosshólaborg áður en haldið var til Búðardals þar sem forsetinn og forsetafrúin heimsóttu leik og grunnskóladeild Auðarskóla.

Forsetahjónin snæddu kjötsúpu með skólabörnunum en eftir það var haldið að Eiríksstöðum í Haukadal þar sem Sigurður Jökulsson á Vatni tók á móti forsetahjónunum og kynnti fyrir þeim sögu Eiríksstaða. Frá Eiríksstöðum eftir hressilega ræðu Sigurðar bónda á Vatni var haldið að afleggjaranum að Kvennabrekku þar sem forsetinn afhjúpaði minnisvarða um Árna Magnússon handritasafnara en myndskeið frá þeirri athöfn má einnig finna hér á vefnum.

Skammt frá Kvennabrekku er bærinn Kringla en þangað hélt forsetinn í heimsókn til þeirra Arnars Freys Þorbjörnssonar og Fjólu Mikaelsdóttur og fjölskyldu þar sem forsetinn kíkti í fjárhúsin. Í fjárhúsunum klöppuðu forsetahjónin kindum og kanínum ásamt því að Arnar Freyr sem er nýkrýndur Íslandsmeistari í rúningi tók ullina af einni á fyrir forsetann sem horfði hughrifinn á.

Forsetahjónin í heimsókn á Silfurtúni

Að loknum fjárhúsverkum í Kringlu var haldið í Búðardal og heimilisfólk á Dvalarheimilinu Silfurtúni heimsótt. Forsetinn lauk svo opinberri heimsókn sinni með þátttöku á fjölskylduskemmtun í Dalabúð þar sem boðið var uppá skemmtiatriði heimamanna á öllum aldri.

Viðtal sem tekið var við forsetahjónin Guðna og Elizu í lok heimsóknar þeirra í Dali má finna í spilaranum hér fyrir neðan. Búðardalur.is fylgdi forsetahjónunum eftir báða dagana í heimsókn þeirra og er stefnt að því að þáttur um heimsóknina verði tilbúinn fyrir jól en þá verður hægt að nálgast hann hér á vefnum.

Í lok viðtalsins sagði Guðni: „Bestu kveðjur til allra Dalamanna sem tóku svo vel á móti okkur“.

Við sem stöndum að Búðardalur.is þökkum Guðna Th. Jóhannessyni og eiginkonu hans Elizu Reid innilega fyrir komuna í Dali og þökkum góða viðkynningu og vinsemd.