Minning: Björn St. Guðmundsson

0
4794

Dalamaðurinn, kennarinn, hestamaðurinn, ljóðskáldið og ljúfmennið Björn St.Guðmundsson er látinn á sjötugasta og níunda aldursári.

Björn lést á sjúkrahúsinu á Akranesi þann 7.mars síðastliðinn.  Hann var fæddur þann 18.mars árið 1939 og hefði því orðið 79 ára næstkomandi sunnudag 18.mars 2018.

Björn ólst upp á bænum Reynikeldu á Skarðsströnd til ellefu ára aldurs en flutti þaðan til Reykjavíkur eftir að móðir hans og bróðir létust. Hann kom svo aftur í Dalina þar sem hann byggði hús sitt ásamt þáverandi eiginkonu sinni Auði frá Arnarbæli að Sunnubraut 15 í Búðardal þar sem heimili hans hefur verið allt til dauðadags.

Björn mun ætíð og ávallt verða í minnum þeirra sem honum kynntust og hann þekktu verða kallaður „Bjössi kennari“ en með því nafni þekkjum við samferðamenn hans hann best sem kennara við Laugaskóla í Dalasýslu og einnig við Grunnskólann í Búðardal.

Um leið og við sem stöndum að Búðardalur.is vottum fjölskyldu Bjössa kennara okkar dýpstu og hlýjustu samúðarkveðjur langar okkur til að birta hér saman það efni sem við eigum til með honum frá liðnum árum. Í stað þess að rita æviágrp hans hér teljum við það komast betur til skila með því að horfa og hlusta á Bjössa sjálfan í viðtölunum sem við eigum með honum.

Fyrst ber að nefna heimsókn Melkorku Benediktsdóttur á Vígholtsstöðum til hans þann 16.maí 2012 en þá tók Melkorka upp nokkur ljóð sem Bjössi fór með ásamt nokkrum kvæðum en hann hafði að eigin sögn mjög gaman af því að kveða ljóð.

Þá eigum við til heimsókn okkar til Bjössa þegar hann fékk útnefninguna Dalamaður ársins árið 2013 hjá Búðardalur.is en myndband af þeirri heimsókn má finna hér fyrir neðan.

Að lokum tókum við ítarlegt viðtal við Bjössa á heimili hans árið 2014 sem einnig má horfa á hér að neðan.

Í lokin má finna myndband/lag Bjössa sem ber titilinn „Vinur minn missti vitið“ sem er líklegast frægasti texti hans.

Guð blessi minningu þessa yndislega manns sem Bjössi var og á svo sterka og fallega minningu í hjörtum margra.

Bjössi verður jarðsunginn frá Hjarðarholtskirkju á morgun laugardaginn 17.mars 2018 kl.14:00 daginn fyrir afmælisdag hans.

Heimsókn Melkorku Benediktsdóttur til Bjössa þann 12.maí 2012:

Bjössi fær útnefninguna Dalamaður ársins 2013:

Viðtal við Bjössa á heimili hans á Sunnubraut í Búðardal árið 2014:

Vinur minn missti vitið: