Kristján Sturluson nýr sveitarstjóri Dalabyggðar

0
3536
Kristján Sturluson - ljósm: krabb.is

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur ráðið Kristján Sturluson sem nýjan sveitarstjóra Dalabyggðar. Kristján starfar í dag sem sérfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu en ráðning hans var samþykkt á fundi byggðarráðs Dalabyggðar. Þetta kemur fram á vef Dalabyggðar í dag.

Kristján hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum en hann var sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Hafnarfjarðarbæjar frá 2013 til 2016, hann gengdi starfi framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi í um átta ár en þar áður var hann framkvæmdastjóri mannauðs og umhverfismála hjá Norðuráli á Grundartanga. Kristján hefur einnig verið stundakennari við Háskóla Íslands. Kristján gengdi einnig stöðu framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags Ísland um tíma.

Kristján er félagsráðgjafi og sálfræðingur að mennt og hefur lokið MBA prófi frá Háskóla Íslands. Kristján er giftur Sigrúni M.Arnarsdóttur launafulltrúa og eiga þau tvö uppkomin börn og eitt barnabarn.

Kristján er ekki ókunnur Dölunum enda dalamaður sjálfur en foreldrar hans eru þau Sturla Þórðarson frá Breiðabólstað á Fellsströnd í Dalasýslu en Sturla var fæddur þann 31. júlí 1925. Hann lést þann 11. mars 2016. Móðir Kristjáns er Þrúður Kristjánsdóttir fv.skólastjóri Grunnskólans í Búðardal en Þrúður hélt uppá 80.ára afmæli sitt um ný liðna helgi í Dalabúð með fjölskyldu og vinum. Þrúður er búsett í Búðardal.

Kristján mun hefja störf þann 1. september.

Búðardalur.is óskar Kristjáni innilega til hamingju með nýja starfið og óskar honum gæfu og gengis í nýju starfi.