Þegar Klofasteinar voru færðir 1995

0
3322

Dalamenn eru byrjaðir að senda okkur efni á vefinn en Brynjólfur Gunnarsson í Búðardal setti sig í samband við vefinn og sendi okkur upptöku sem hann átti í fórum sínum á VHS spólu. Um er að ræða viðtal úr fréttum RÚV frá árinu 1995 þar sem fjallað er um lagningu nýs vegar í landi Ljárskóga við Klofasteina.

Í umræddri frétt RÚV er meðal annars rætt við Hermann heitinn Bjarnason bónda á Leiðólfsstöðum þar sem hann er spurður út í framkvæmdirnar. Einnig er rætt við forsvarsmenn verktakafyrirtækisins Borgarverks og starfsmann Vegagerðarinnar vegna málsins.

Við þökkum Brynjólfi kærlega fyrir sendinguna og fyrir að vera sá fyrsti sem setur sig í samband við Búðardalur.is og sendir inn efni eftir að við kölluðum eftir því í gær hér á vefnum.

Af vef Vísindavefsins má finna eftirfarandi:

Klofasteinar við Ljárskóga.
Sumarið 1995 var verið að leggja nýjan kafla á þjóðvegi nr. 60, Vestfjarðavegi, um landareign Ljárskóga sem er skammt norðan við Búðardal. Þar háttaði svo til að stór steinn skagaði út í nýja vegstæði og var óhjákvæmilegt að flytja steininn til hliðar. Þetta var þriðjungur svokallaðra Klofasteina en sagan segir að steinarnir hafi í árdaga verið óskipt steinhella.

Klofasteinar við Vestfjarðaveg, skammt norðan við Búðardal. Þegar þessi vegur var byggður fór af stað saga um álfabyggð í steinunum. Þeir voru færðir úr vegstæðinu í sæmilegri sátt. Vinna við vegagerðina á þessum stað gekk mjög illa, bilanir í tækjum voru tíðar og óhöpp áttu sér stað. Kunnugt heimafólk þekkti til sagna um að álfar byggju í steinunum og þótti líklegt að þeir væru valdir að þessum ósköpum.

Fór svo að verktakinn baðst undan því að hreyfa við steininum. Í framhaldi af umfjöllun fjölmiðla um málið hafði kona samband við tæknimenn Vegagerðarinnar á Vesturlandi. Hún var fædd og uppalin þarna á staðnum, sagðist hafa miðilshæfileika og vera tilbúin til að aðstoða við lausn málsins. Konan fór á staðinn og kannaði steininn með því að leggja höndina á hann. Síðan lýsti hún því yfir að ekki væru álfar í steininum sem átti að flytja en hins vegar væru álfar í hinum Klofasteinunum og þá þekkti hún frá því hún var ung.

Fékk hún samþykki álfanna fyrir því að flytja mætti steininn nær hinum steinunum ef varlega væri farið. Það voru starfsmenn Vegagerðarinnar sem færðu steininn og fylgdist konan vel með. Að hennar sögn var hún ekki ein um það því álfarnir voru við hlið hennar heldur áhyggjufullir. Tókst flutningurinn vel og ekki hafa komið upp fleiri vandamál á þessum stað.

Heimildir:
RÚV
Vísindavefurinn