Hvar er frelsið? Hvað mun Dalabyggð gera?

0
3093
Ljósm: Sig.Sig 15.09.2019

Vefurinn Búðardalur.is hefur ekki skrifað staf um vindorkuumræðuna sem verið hefur í Dalabyggð frá því fyrirtækið Storm Orka ehf keypti landbúnaðarjörðina Hróðnýjarstaði þann 1.ágúst 2017. Þá hefur annað fyrirtæki óskað eftir svæði í landi Sólheima í Laxárdal fyrir vindorkuver.

Nú er það mat okkar sem að vefnum standa að ekki sé hjá því komist að fjalla um málið og stöðuna í dag. Er það mat okkar að Dalirnir eigi að byggja á landbúnaði, ferðaþjónustu og sögu Dalanna og að ekki sé gengið á rétt íbúa með yfirgangi og peningaöflum stóriðju.

Þessi vefur var stofnaður á sínum tíma með hagsmuni Dalanna að leiðarljósi og teljum við að fyrirhugaðar orkuversframkvæmdir séu sjónarmið skammtímagróða og ekki sé hugsað til framtíðar.

Eins og fyrr segir keypti fyrirtækið sem að ofan greinir jörðina Hróðnýjarstaði af þáverandi bændum sem höfðu stundað landbúnað á jörðinni í um það bil 20 ár og ábúendurninr þar á undan stundað landbúnað mun lengur eins og fram kom í viðtali við Hjalta Þórðarson bónda á Hróðnýjarstöðum í viðtali við vefinn í apríl 2013.

Þeir sem áhuga hafa geta kynnt sér forsögu málsins alls á tímalínu sem sett hefur verið upp á vefnum www.hagsmunir.is

Nú hefur Dalabyggð boðað til fundar miðvikudaginn 3.júní kl.15:00 þar sem fjalla á um orkuversmál í landi Sólheima og kl.18:00 þar sem fjalla á um orkuversmál í landi Hróðnýjarstaða. Fundarboðið vegna breytinga á aðalskipulagi Dalabyggðar má sjá hér.

Búðardalur.is hvetur sem flesta sem láta sig mál Dalanna varða að mæta á íbúafundina kl.15 og kl.18 og taka til máls og segja sína skoðun á málinu.

Þín skoðun skiptir máli!

Fundurinn mun verða sendur út í beinni útsendingu á Youtube rás Dalabyggðar og verður slóðin sett hér inn um leið og hún liggur fyrir: https://www.youtube.com/watch?v=7DYLZvQh-YI