Það er ekkert sumar án þess að fara í Dalina

0
2393

grettirGrettir Börkur Guðmundsson er flestum Dalamönnum að góðu kunnur en hann rak meðal annars söluskála Olís og Skeljungs í Búðardal um árabil eftir að hafa tekið við rekstrinum af Kristjönu Ágústsdóttur. Söluskálinn er sama hús og þar sem ÁTVR er með áfengisverslun sína í Búðardal í dag við Vesturbraut.

Á spjalli við Dalamenn og aðra sem áttu leið um Dali og komu við í Olíssjoppunni hjá Gretti á þeim árum er sjoppan var starfrækt eru á einu máli að notalegt og heimilislegt hafi verið að koma í sjoppuna til Grettis hvort heldur var til þess að fylla á tankinn eða til þess að seðja hungrið. 

Segja má að „Grettissjoppa“ eins og sumir kölluðu hana hafi verið einskonar félagsmiðstöð sumra heimamanna og hafi koma þeirra þangað verið partur af daglegum venjum margra. Eitt er víst að margir væru til í að gefa mikið fyrir það að geta gengið inn í sjoppuna hjá Gretti í dag og keypt sér litla kók í gleri og prins póló í vaxbréfinu eins og það var í gamla daga, taka svo einn bláan ópal með í vasann og setja afganginn í spilakassann sem tók 10 krónur.

En margt er orðið breytt og sú persónulega þjónusta og viðmót sem áður þekktist líkt og í Olís sjoppunni hjá Gretti hér um árið hefur verið á miklu undanhaldi síðustu ár.

Grettir er mikill hestamaður og eru hrossin hans bestu félagar og vinir. Grettir býr í Mosfellsbæ í dag og heldur hross sín þar en áður bjó Grettir í um það bil 10 ár í Borgarnesi eftir að hann flutti úr Búðardal.  Aðspurður um það hvort hann borði hrossakjöt segist Grettir gera það þrátt fyrir vinskap sinn við hrossin en hann segist þó ekki taka hrossakjöt með sér í hestaferðir.

Þorgeir Ástvaldsson og Sigurður Sigurbjörnsson hittu Gretti fyrir í hesthúsi í Mosfellsbæ nú í vor og spjallaði Þorgeir við hann um gömlu dagana í Dölunum og um hestamennskuna.