Berjahorfur í Dölum

0
1488

blaberÆtlar þú til berja í Dölum þetta árið?  Þá máttu búast við því að bera eitthvað úr bítum þar sem berjaspretta er mjög góð víðast hvar miðað við óformlega könnun Búðardalur.is. Er þá einna helst um að ræða bláber sem hafa þroskast vel í veðurblíðunni í sumar.

Fólk nýtir berin á ýmsan hátt en það sem fólk gerir einna helst úr berjunum er krækiberjahlaup, aðalbláberjasulta og hlaup, krækiberjasaft og bláberjasaft. Saftana má nota til drykkjar og út á hrísgrjónagraut, ís og aðra eftirrétti sem dæmi. Svo ekki sé minnst á bláber í skál með sykri og rjóma.

Sumir nota jöklakrap og hratið úr krækiberjunum til að búa sér til góðan líkjör fyrir jólin. Ekki má láta hjá líða að nefna að bláber eru full af næringarefnum og andoxunarefnum og geta þar af leiðandi dregið úr öldrun.

Við hvetjum því alla Dalamenn sem og aðra að fara til berja og nýta sér þessa auðlind og um leið langar okkur einnig að biðja þá sem það gera að senda okkur upplýsingar og eftir atvikum ljósmyndir úr berjaferðum sínum og deila með okkur fréttum af berjasprettu og týnslu.

Að lokum bendum við á skemmtilegan vef Berjavina en slóðin er www.berjavinir.com , en einnig eru Berjavinir á Facebook.

Netfangið okkar er budardalur@budardalur.is