Jarmandi góð afmælisveisla í Dalabúð

0
1759

asiafmaeliÞað var sannarlega kátt á hjalla þegar Daladrengurinn eini sanni Ásmundur Einar Daðason frá Lambeyrum í Laxárdal  hélt uppá þrítugsafmæli sitt með pompi og pragt síðastliðið laugardagskvöld í Dalabúð (20.nóv 2012). Með rausnarlegum hætti og um leið þjóðlegum var tekið á mót hundruðum gesta sem skemmtu sér konunglega.

asiafmaeli2Dæmi um kræsingar voru eðalkræklingur úr svölum Hvammsfirði, ótrúlegt lostæti. Sviðasultan ,slátrið og hangikjötið með hreinræktuðu Dalabragði. Sérbruggaður skólabróðurbjór úr Skagafirðinum nefndur LAMBI sem framleiddur er og kynntur á markaði sem „jarmandi góður“. Nafngift á miðinum er sannanlega ættuð úr Laxárdalnum nánar tiltekið frá Vígholtsstöðum og ljósmyndin á flöskunni fengin úr safni hins eina sanna Tona ljósmyndara í Búðardal.

Margir mættu í lopapeysu (tilætlaður samkvæmisklæðnaður), en miklu færri í gúmmískóm. Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra hélt uppi þrumustuði með kröftugum kynningum „Dreypið á veigunum, blandan eða bollan er græn að lit og hún gerir ykkur að framsóknarmönnum.Það er gott“.

asiafmaeli3Guðni þakkaði vinstri grænum og einkanlega Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra fyrir uppeldið á afmælisbarninu ,það gerði barninu kleift að stíga heillasporið yfir í Framsókn. Ögmundur svaraði að bragði að auðséð hefði verið að í raðir framsóknarmanna vantaði alvöru dáðadreng og því hafi orðið að ráði að senda piltinn yfir í raðir framsóknar af einskærri velvild.

Gestir komu víða að fyrir utan nærsveitarvini úr Dölum komu skólasystkini frá Ausfjörðum og Hornafirði svo dæmi séu tekin.

Nær gjörvallur þingflokkur Framsóknar var á staðnum og tók lagið (sem gaman væri að eiga hljóðritað) af tærri snilld. Stöku þingmenn Vinstri grænna auk Ögmundar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingmaður af Þorbergsstaðaætt og sjálfstæðismenn svo sem Einar K.Guðfinnsson auk Lilju Mósesdóttur þingmanns, en Lilja kom á árum áður á böll í Dalabúð utan af Snæfellssnesi, nánar tiltekið frá Grundarfirði og hafði gagn og gaman af.
Árni Johnsen steig svo á stokk og flutti sérsmíðaðar lopapeysuþulur í brekkustíl til handa afmælisbarninu. Hann klikkar aldrei. Afmælisveislan tókst í heild afar vel og er afmælisbarninu Ásmundi og Sunnu Birnu Helgadóttur sambýliskonu hans til mikils sóma. Hin landsfræga harmonikuhljómsveit allra tíma Nikkólína gaf síðan tóninn og lék af lífsins list fyrir dansi og Dalapoppararnir Ábrestir, vinir Ásmundar slúttuðu með hávaða og látum, eða dúndrandi spili fram á framsóknar græna nótt.
Margar gjafir bárust eins og gefur að skilja, velflestar táknrænar um vinskap og velvild í garð afmælisbarnsins, án íburðar og óhóflegs skrauts. Ein gjöf vakti þó séstaka athygli enda var hún afhent á sviði fyrir framan alla veislugesti, nefnilega lítill hvolpur af smalahundakyni. Ásmundur þakkaði fyrir sig með hvuttann í fanginu og sagði „ég þakka fyrrverandi vini mínum kærlega fyrir. Svo var hlegið, allir skildu vinarbragðið.