Fyrsti snjórinn í Búðardal

0
1026

budardalurvetur2012Allt frá því vefurinn Búðardalur.is opnaði annan í hvítasunnu, mánudagskvöldið 28.maí síðastliðinn hefur vefmyndavélin sem staðsett er á húsi KM-Þjónustunnar tekið ljósmynd hvern einasta dag klukkan 16:00, en þessar myndir hafa verið aðgengilegar í myndaalbúminu sem kallast „Ein á dag“ hér á síðunni.

Þar sem vefmyndavélin var komin upp nokkru áður en vefsíðan opnaði eru til ljósmyndir allt frá 5.maí síðastliðnum. Þó er myndin frá 29.maí hvað skemmtilegust en þá brugðu nokkrir nemendur og kennarar í Auðarskóla á leik og stilltu sér upp fyrir framan vélina rétt áður en hún smellti mynd af þeim.

Segja má að nú í dag þann 30.október hafi orðið þáttaskil í ljósmyndunum þar sem í fyrsta skipti er alhvít jörð í Búðardal og nokkuð vetrarlegt um að litast. Hvort hér eftir og fram á næsta vor muni ljósmyndirnar sem vefmyndavélin mun taka fyrir okkur hvern dag klukkan fjögur verði hvítar og vetrarlegar skal ósagt látið.

Veðurstofa Íslands hefur þó varað við vonskuveðri um norðanvert landið næstu daga. Búist er við norðanátt og snjókomu með með vindhraða á bilinu 13-20 m/s. Mun þetta veður ekki eiga að ganga niður fyrr en á laugardag eða sunnudag.