Kristján Finnur Sæmundsson fær viðurkenningu

0
1448

kristjanfsaemundssonRio Tinto Alcan veitti á dögunum Kristjáni Finn Sæmundssyni frá Lindarholti í Saurbæ viðurkenningu fyrir góða lausn á erfiðri þraut í verkefni sem Ístak vinnur að fyrir Rio Tinto Alcan í Straumsvík.

Kristján Finnur er véltæknifræðingur og starfar hjá Ístak en þeir eru verktaki í stækkunarverkefni  Alcan í Straumsvík og er Kristján framleiðslustjóri Ístaks í verkefninu. Viðurkenningin var veitt Kristjáni þar sem hann fann góða lausn á erfiðu verkefni.

Samkvæmt því sem fram kemur á vef Ístaks um verkefnið snéri lausn Kristjáns að vandamáli stálröra í kjallara kerskála en þau lentu of nálægt kjallaragólfinu vegna steina eða klappa sem hefði þýtt aukna hættu á hitaskemmdum á strengjum vegna mögulegs leka á fljótandi áli.

Saga átti því kjallaragólfið, grafa dýpri skurði og lækka lagnaleiðina með tilheyrandi viðgerðum á kjallaragólfi. Verkið var verðlagt en við skoðun á áhættu við verkið með kerskála í rekstri og mikla áhættu á vegna skammhlaups straums milli jarðar og kerleiðara annars vegar og áhættu vegna mögulegs leka á fljótandi áli yfir starfsmenn Ístaks,  neitaði staðarstjóri Ístaks að gefa  verð í verkið nema að öryggi starfsmanna væri tryggt.

Fram kemur á vef Ístaks að búið hafi verið að hanna hlífðarskýli á hjólum fyrir starfsmenn Ístaks en Kristján mun hafa verið ósáttur við þá fyrirhuguðu aðgerð og velti því fyrir sér öðrum leiðum. Ein þeirra leiða var sú sem Kristján fékk viðurkenninguna fyrir en hún fólst í því að beita sömu aðferð og notuð er við viðgerðir á ónýtum eða lélegum skólprörum í jörðu.

Verkið myndi því verða unnið allt utan frá og því engin hætta fyrir starfsmenn Ístaks. Hugmyndin fólst í því að blása glertrefjastyrktum Polyester sokk í gegnum rörið sem formar einangrandi polyester rör innan í stálrörinu með nægjanlegri hitaeinangrun til að koma í veg fyrir tjón á strengjum fyrir blásara reykhreinsivirkis eins og segir á vef Ístaks.

Ístaksmenn eru greinilega ánægðir með þessa lausn Dalamannsins knáa en í lok greinarinnar á vef Ístaks segir „Bravó fyrir snilldarhugmynd Kristjáns Finns og við óskum honum til hamingju með viðurkenninguna frá Rio Tinto Alcan.

Það gerum við einnig hér á Búðardalur.is og óskum við Kristjáni til hamingju með viðurkenninguna og óskum honum áfram velfarnaðar í sínum störfum.

Skoða fréttina á vef Ístaks.