Menning á röngum stað?

0
963

menningarongumstadEr menningarverkefni líkt og Búðardalur.is ekki styrkhæft gagnvart menningarsjóðum hins opinbera?

Við sem stöndum að Búðardalur.is menningarmiðju Dalanna höfum undanfarið verið að ræða það okkar á milli hvað sé menning og hvað ekki. Þessi umræða okkar hefur orðið til af því að síðustu tvö ár hefur umsóknum okkar til Menningarráðs Vesturlands verið hafnað. Ekki verður hægt að tíunda það hér hvers vegna umsóknum okkar hefur verið hafnað þar sem Menningarráð rökstyður ekki né svarar fyrirspurnum vegna úthlutunar úr sjóðnum.

Þó hefur okkur borist til eyrna samkæmt áræðanlegum heimildum að Menningarráð Vesturlands sé með það í stefnu sinni að styrkja ekki vefsíður. Sé það rétt væri áhugavert að vita hvers vegna? Og sé það rétt þá hefði verið gott að vita af því að ekki myndi þýða að sækja um og spara okkur þann dýrmæta tíma sem settur hefur verið í þessar þrjár umsóknir sem sendar hafa verið til sjóðsins í góðri trú síðstliðin tvö ár.  Það skal tekið fram að hvergi er að finna í gögnum Menningarráðs að ráðið styrkji ekki verkefni sem haldið er úti á vefsíðum!

Stefna okkar hefur verið frá byrjun að safna saman efni sem hefur menningarlegt gildi fyrir sögu Dalasýslu í nútíð og þátíð, halda utan um söguna í máli, myndum, riti og ræðu. Gera svo efnið aðgengilegt fyrir þá sem áhuga hafa. Og hvar er best að geyma efnið til að það sé sem aðgengilegast fyrir almenning árið 2013? Jú, á veraldarvefnum þar sem þorri þjóðarinnar vafrar daglega í menningar og afþreyingarþorsta sínum.

Við förum ekki út í það hér að skilgreina hugtakið menning, en það má finna útskýringar á því í Orðabók Menningarsjóðs sem dæmi.  En í okkar huga sem að þessu verkefni stöndum er það ekkert annað en menning að safna saman menningartengdu efni hverskonar og safna því saman á eina miðju, menningarmiðju, og gera það sem aðgengilegast fyrir almenning. Síst minni vinna fer í öflun efnis og birtingu þess á vefsvæði heldur en ef um væri að ræða sýningu á menningartengdu efni sem hengt væri á vegg eða sett á borð í safnahúsi, fólki til sýnis í takmarkaðan tíma.

Eftir að hafa skoðað uppgefnar forsendur á vef Menningarráðs Vesturlands töldum við okkur vera með nokkuð vel styrkhæft verkefni í höndunum og því sóttum við um í lok árs 2011 fyrir árið 2012. Svarbréf barst svo í febrúar 2012 þar sem kom fram að ekki hefði verið unnt að verða við umsókn okkar að þessu sinni. Einnig kom fram að ráðið myndi ekki rökstyðja né svara fyrirspurnum vegna úthlutunar úr sjóðnum. En við vorum hvattir til þess að sækja um að ári liðnu aftur.

Með þessa niðurstöðu fyrir framan okkur hugsuðum við með okkur að úr því að við fengum ekki úthlutað fyrir árið 2012 væri líklegra að við myndum fá styrk fyrir árið 2013 enda hvattir til að sækja um aftur. Í millitíðinni reyndum við þó að sækja beint um styrk til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins en þar var okkur bent á að sá sjóður sem við ættum að sækja í með okkar verkefni væri Menningarráð Vesturlands.

Í stuttu máli sóttum við aftur um styrk í lok ársins 2012 fyrir árið 2013 en fengum aftur synjun í bréfi frá sjóðnum í febrúar 2013 með sömu orðum og árið áður, og aftur vorum við hvattir til að sækja um að ári. Þess má geta að einnig sóttum við um styrk til gerðar heimildarmyndar sem er á teikniborði Búðardalur.is og fjallar sú mynd um brottför víkingaskipsins Íslendings frá Dölum áleiðis til vesturheims árið 2000. Sú umsókn fékk einnig höfnun en tekið skal fram að hún er sjálfstætt verkefni þó einhvern daginn muni hún hugsanlega verða aðgengileg á menningarmiðju Dalanna.

Þá voru bréfin orðin þrjú á tveimur árum frá Menningarráði Vesturlands þar sem verkefni okkar eru virt að vettugi með öllu.

Í ljósi skilgreiningar á Menningarráði Vesturlands og hlutverki þess sem sjá má á vefsíðu þesswww.menningarviti.is er vart hægt að segja annað en verkefni okkar samræmist því sem þar er sett fram og verður því ekki hjá því komist að niðurstaða afgreiðslu menningarráðsins á umsóknum okkar síðustu tvö árin valdi okkur miklum vonbrigðum. Þess skal getið að í ár úthlutaði Menningarráð alls 24.860.000 kr til margvíslegra menningarverkefna á Vesturlandi og árið 2012 var úthlutað 27.603.000 kr.

Það er þó ætlun okkar að halda verkefninu áfram en á meðan ekki gengur að útvega verkefninu þann fjárhagslega stuðning sem nauðsynlegur er til að koma verkefninu á fót, höldum við áfram í hægagangi. Nægar eru jú hugmyndirnar og verkefnin framundan tengt þessu verkefni.

Við erum mjög þakklát fyrir þær frábæru undirtektir sem við höfum víða fengið og fyrir allt það efni sem í okkur hefur verið borið.  Líkt og áður hvetjum við Dalamenn, heimamenn sem og brottflutta til að hjálpa okkur með þetta samfélagsverkefni og senda okkur ábendingar um efnistök eða áhugavert efni, eða koma til okkar efni sem á erindi inná menningarmiðju Dalanna.

f.h. Búðardalur.is | Menningarmiðja Dalanna

Sigurður Sigurbjörnsson
Þorgeir Ástvaldsson