Aftur bensínlaust í Búðardal

0
1012

Screen Shot 2016-01-11 at 18.26.52Sú staða hefur enn á ný komið upp að ekkert bensín né díselolíu er að hafa í Búðardal og hefur sú staða verið uppi í allan dag eða frá því starfsmenn Samkaupa komu til vinnu í morgun. Það er N1 sem rekur bensíndælurnar í Búðardal í samstarfi við Samkaup.

Að sögn starfsmanns Samkaupa var tilkynnt um bilun í einni af eldsneytisdælum staðarinns til N1 á föstudaginn en viðgerðarmaður mun ekki hafa verið sendur á staðinn. Engin vaktþjónusta eða þjónusta við eldsneytisdælur N1 er í Búðardal og því mun þurfa að kalla til viðgerðarmann úr Reykjavík ef bilun sem þessi kemur upp. 

Hægt var að nota aðra dælu til að fá bensín þrátt fyrir bilunina en síðan kláraðist bensínið úr þeim tanki og þá mun hvorki hafa verið hægt að fá bensín né díselolíu þar sem um var að ræða bilaða dælu annars vegar og tóman tank hinsvegar.

Í samtali við vaktmann hjá N1 vísaði hann á Olíudreifingu sem sagði þá hafa tekið við málinu. Starfsmaður Samkaupa sagði viðgerðarmann vera væntanlegan á hverri stundu til að gera við dælurnar.

Búðardalur.is hefur heimildir fyrir því að þessi óheppilega staða hafi komið mörgum illa, þar á meðal ferðamönnum en einnig fréttist af bónda úr sveitinni sem hafði komið sérstaklega til að fylla á tank dráttarvélar sinnar en þurfti frá að hverfa.

Samskonar atvik kom upp í ágúst í fyrra og að minnsta kosti tvisvar sinnum í vetur samkvæmt heimildarmanni,  og hafa margir heimamenn oft hugsað til gömlu daganna þegar samkeppni ríkti á eldsneytismarkaði í Dölum og tvær bensínstöðvar voru í Búðardal, en á árum áður var einnig rekin bensínstöð þar á vegum Olís. Í ljósi gríðarlegrar aukningar á umferð í gegnum Dali á síðustu árum kann einhver að velta því fyrir sér hvort önnur olíufyrirtæki hafi ekki hugsað sér að koma sér upp þjónustustöð í Dalabyggð.