Raggi Bjarna heimsækir Dalamenn á þjóðhátíðardaginn

0
1150

raggibjarnaHinn eini sanni Ragnar Bjarnason mætir í Dalina á þjóðhátíðardaginn 17.júní næstkomandi og heiðrar Dalamenn með nærveru sinni og tekur lagið í Dalabúð kl.17:00. Þessi viðburður var fyrst auglýstur sem atriði á Jörfagleði Dalamanna í ár en var frestað vegna óviðráðanlegra ástæðna.

En nú er komið að því að þessi mikli höfðingi og forkólfur sveitaballamenningarinnar mætir á fornar slóðir má segja, svo oft og iðulega hann fór um landið með hljómsveitum til dansleikjahalds og eru Dalirnir ekki undanþegnir í þeim efnum.

Fyrstu hljómleika- og ballferðirnar fór hann með föður sínum Bjarna Böðvarssyni á eftirstríðsárum seinni heimstyrjaldar á síðustu öld. Síðan fór hann með eigin hljómsveitir um land allt og ekki síst  Sumargleðina sem rúntaði um landið í hartnær 20 ár á sínum tíma.

Hann er enn að eins og þjóðin þekkir og í Dalabúð verða haldnir hljómleikar í tali og tónum með hljómsveit Halldórs Þ.Þórðarsonar á þjóðhátíðardaginn 17.júní eins og áður segir.

Þorgeir Ástvaldsson verður sögumaður og píanóleikari.

Sérstaklega er samkoman til heiðurs þeim Dalamanni sem heitir Ríkharður Jóhannsson eða Rikki í Gröf, eins og flestir þekkja hann.  Sannkallaður öðlingur sem leikið hefur á hljóðfærin mörg og þá einkum saxófóninn á böllum og öðrum mannamótum í Dölum lengur en elstu menn muna.

Látum þennan einstæða viðburð ekki framhjá okkur fara og tökum vel á móti Ragga Bjarna er hann mætir í Dalabúð með sína hangandi hendi og bros á vör.

Sjá má auglýsinguna stærri með því að smella á myndina hér fyrir ofan.