Heimsókn frá Danmörku til Dalanna 5.ágúst 2013

0
920

heimsoknÁ mánudagskvöld verslunarmannahelgar þann 5.ágúst næstkomandi kemur hópur eldri danskra borgara frá sveitarfélagi Skvie-borgar á Jótlandi í Danmörku í „alltof stutta“ heimsókn til Búðardals með Jens Hvidtfeldt Nielsen fyrrverandi sóknarpresti í Hjarðarholtsprestakalli sem fararstjóra.

Í tengslum við þessa heimsókn er verið að skipuleggja guðsþjónustu í Hjarðarholtskirkju þetta kvöld í umsjá bæði sr.Önnu Eiríksdóttur og sr.Jens fyrir Danina og einnig fyrir Dalamenn sem vilja vera með. Dalamenn sem og aðrir eru hvattir til að mæta í Hjarðarholtskirkju á þessum tíma  og taka vel á móti fyrrverandi sóknarpresti Dalanna.

Guðsþjónustan byrjar kl. 18:30 en í framhaldi af henni um klukkan 20:00 verður samsæti í Leifsbúð í Búðardal þar sem gaman væri að sjá sem flesta Dalamenn taka þátt og vera með þessum dönsku gestum. Ef einhver vill undirbúa skemmtun í söng, ræðu eða annað við þetta tækifæri er það mjög velkomið. Boðið verður uppá hlaðborð í Leifsbúð af þessu tilefni en hver og einn greiðir fyrir sig. Borðapantnir eru í Leifsbúð í síma 434-1441.

Dönsku eldri borgararnir hlakka mikið til þessarar heimsóknar og sérstaklega til að halda guðsþjónustu með Dalamönnum og hitta þá yfir veisluborði á eftir. Margir þessara gesta hafa aldrei komið til Íslands áður en flest þeirra hafa lesið Laxdælu fyrir ferðina og því má víst segja að hápunktur þessarar ferðar sé heimsóknin í Búðardal og nágrenni.