Ævintýraleg uppbygging í Ólafsdal

0
955

olafsdalur1Hin árlega Ólafsdalshátíð var haldin dagana 10.-11.ágúst eða um nýliðna helgi. Í dásemdarveðri nutu menn skemmtunar í fróðlegum fyrirlestrum, söng og spili eins og venjan er- auk gönguferða um svæðið. Fjölbreytileg dagskrá það vantaði ekki – vel að staðið.

Heimaræktað grænmetið -lífrænt og vottað – rann út eins og heitar lummur úr kálgörðum bændaskólanema Ólafsdals fyrir meir en öld. Á fjórða hundrað manns sóttu dalinn heim að þessu sinni.

Meðal gesta voru kunnir Vestlendingar úr pólitíkinni fyrr og síðar sem lagt hafa þessu metnaðarfulla verkefni lið með einum eða öðrum hætti svo og að sjálfsögðu fagmenn húsfriðunar,skólahalds og byggingartækni að ógleymdum frumkvöðlinum Rögnvaldi Guðmundssyni ferðamálafræðingi sem ættir á að rekja til Ólafsdals.

olafsdalur5Hann hefur unnið þrekvirki í því að glæða þennan merka höfuðstað tæknibyltingar í landbúnaði fyrir meir en 100 árum lífi og það sem meira er -verkefnið er vel skipulagt í tíma með raunsæi í fyrirrúmi og mun standa lengi.

Heimamenn og venslafólk er líka sannarlega til staðar. Allt þetta fólk mun vonandi sjá til þess að í áranna rás verði Ólafsdalur endurbyggður með glæsibrag og gangi í endurnýjun lífdaga eða þannig – verði vitni um tæknibyltingu fyrr á tíð, þjóðinni til hagsbóta -verði vitni um framsækið fólk sem náði í þekkingu um langan veg með ærinni fyrirhöfn,kenndi og miðlaði. Það bar árangur þrátt fyrir harðneskju og fátækt  eins og sagan segir. Þökk sé þeim hjónum Torfa Bjarnasyni og Guðlaugu Sakaríasdóttur -fyrst og fremst. Teikningar af framtíðarskipulagi svæðisins eru afar eftirtektarverðar. Sannkallaður ævintýraheimur og á örugglega eftir að verða öflugt aðdráttarafl ferðamanna í framtíðinni og ánægjulegur áningastaður.

Hjónin Torfi Bjarnason og Guðlaug Sakaríasdóttir í Ólafsdal | Ljósm: Þorgeir ÁstvaldssonMeðal gesta var menntamálaráðherrann Illugi Gunnarsson og núverandi forseti Alþingis Einar K.Guðfinnsson sem oft hefur lagt málefnum Dalanna lið í orðum og gjörðum á undanförnum árum. Í fjölbreytilegri dagskrá var Illugi ræðumaður hátíðarinnar og kunni vel að meta myndarlegt framtak í dalnum.

Við hjá Búðardalur.is tókum Illuga stuttlega tali útundir vegg gamla skólahússins: „Þetta er ótrúleg og mikil saga mikil saga hjóna sem lögðu gríðarlega mikið á sig til að hjálpa öðrum. Þau tileinkuðu sér tækni til að færa samfélaginu.Skólinn hér lagði grunn að framfaraskeiði þjóðarinnar í byrjun síðustu aldar. Tæknibreytingar í landbúnaði skiluðu þúsundum manna betri lífskjörum með tíð og tíma.

olafsdalur3Hér í Ólafsdal var ekki aðeins þekkingin kennd og numin heldur var hér einnig smíði á nýjum tækjum sem dreifðust um land allt til hagsbóta öllum.Það sem hér er nú að gerast hugnast mér þ.e. á þessum atriðum eigum við Íslendingar að byggja okkar ferðaþjónustu – ekki endilega á massa-ferðaþjónustu og reyndar alls ekki, heldur á sambærilegum hlutum sem við upplifum hér í Ólafsdal þ.e. sagan -menningin almennt og matarmenningin að sjálfsögðu.“ Segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra að lokum.

olafsdalur4Svona þurfum við að bera okkur að til að glæða ferðaþjónustu Dalabyggðar,svæðið er stútfullt af sögu,fjölmargar hugmyndir bíða þess að fundinn verði farvegur til að glæða og örva atvinnustarfsemi á þessu sviði atvinnu- og samfélagsmála í Dalabyggð.