Haustfagnaður FSD gekk vel

0
973

fsd2013Vel var sótt á alla viðburði Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu sem hélt sinn árlega haustfagnað nú um helgina. Hátíðin hófst með sviðaveislu og hagyrðingakvöldi í íþróttahúsinu að Laugum í Sælingsdal. Um fjögurhundruð manns sóttu sviðaveisluna sem tókst vel.

Þá fór fram á laugardaginn Íslandsmeistarakeppni í rúningi. Nokkur hundruð manns fylgdust með keppninni og voru keppendur hvattir áfram af sínum sveitungum. Alls tóku tólf keppendur þátt og komust níu þeirra áfram í aðra umferð og þrír keppendur komust síðan áfram í úrslit. Þar vann Reynir Þór Jónsson bóndi að Hurðarbaki í Árnessýslu sigur en Jón Ottesen, Ytri-Hólma varð í öðru sæti og í þriðja sæti hafnaði Guðmundur Þór Guðmundsson frá Kvennabrekku.

Þá var boðið uppá grillað lambakjöt á laugardagskvöldið í Dalabúð þar sem einnig fór fram verðlauna afhending í hönnunarsamkeppni FSD og ÍSTEX ásamt því að verðlaun voru veitt og ljósmyndasamkeppni FSD og einnig fyrir þrjú efstu sætin í rúningskeppninni. Þess má geta að í hönnunarsamkeppninni urðu úrslit þessi: Þriðja sæti: Sigríður Jónsdóttir frá Gillastöðum, annað sæti: Ása Gísladóttir á Hornstöðum, fyrsta sæti: Fanney Þóra Gísladóttir frá Spágilsstöðum.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá nokkra af keppendunum munda klippurnar ásamt áhugasömum áhorfendum í upphafi keppninnar á laugardaginn.