Hraðakstur í gegnum Búðardal

0
966

vesturbrautVitni urðu að því þegar þremur jeppabifreiðum var ekið í gegnum Búðardal í dag á mikilli ferð, en bifreiðunum var ekið hverri á eftir annarri. Að sögn vitnis var bifreiðunum mjög líklega ekið á um það bil 80 til 90 kílómetra hraða en hámarkshraði á Vesturbraut sem er aðalgata Búðardals er 50 km/klst.

Er þetta ekki í fyrsta skipti sem íbúar Búðardals verða varir við hraðakstur í gegnum bæinn og þykir mildi að ekki hafi orðið slys sökum þess í gegnum tíðina.

Á þessum tíma sem umræddum bifreiðum var ekið í gegnum Búðardal í dag, eða um klukkan 15:30, var hefðbundnum skóladegi lokið í Auðarskóla og því auknar líkur á því að börn eða aðrir vegfarendur gætu verið á ferðinni við Vesturbraut.

Beggja vegna þar sem ekið er inn í Búðardal eru bæði umferðarskilti sem sýna hámarkshraða 50 km/klst ásamt því að hraðaskilti sem sýna hraða ökutækja eru einnig til þess að stuðla að því að ökumenn dragi úr hraða áður en ekið er í gegnum þorpið.

LögreglubifreiðLíkt og áður hefur komið fram hefur umferðin í gegnum Dali og þar á meðal Búðardal stóraukist með tilkomu fjallvegarinns yfir Arnkötludal / Þröskulda og þá sérstaklega yfir sumartímann.

Spurningin sem hlýtur því að standa eftir hjá íbúum er sú hvort ekki þurfi að grípa til frekari aðgerða til þess að sporna við hraðakstri í gegnum þorpið áður en slys hlýst af.