Á hraðferð á hjóli í gegnum Dalina

0
1036

eikiÁ fimmta tímanum í dag rákumst við á hjólreiðamann rétt fyrir ofan Laxá í Dölum og var hann á suðurleið.

Það er svo sem ekki í frásögur færandi að hjólreiðamaður sé á ferðinni í gegnum Dalina að sumarlagi en hér var um að ræða harðjaxlinn, dugnaðarforkinn og kafarann Eirík Inga Jóhannsson.

Eiríkur sagðist hafa flogið til Ísafjarðar í gærkvöldi með hjólið sitt og hafi hann fengið sér vænan hamborgara á Ísafirði og lagt síðan í hann hjólandi til Reykjavíkur um klukkan 21:00 í gærkvöldi.

Eiríkur sagðist hafa sofið lítið, hann hafi lagt sig í hálftíma á grasbala á Hólmavík þegar hann kom þangað en haldið síðan áfram.

Aðspurður sagðist Eiríkur búast við að koma til Reykjavíkur um klukkan 03:00 í nótt ef allt færi að óskum en hann hjólar auðvitað Hvalfjörðinn. Eiríkur sagðist vera að undirbúa sig fyrir WOW Cyclothon hjólakeppnina sem fram fer 24.-27.júní. En þá er um að gera að fylgjast með Eiríki og heita á kappann.

Eiríkur þekkir sig vel í Dölum enda stundaði hann grunnskólanám að Laugum í Sælingssdal á sínum tíma en hann bjó þá ásamt móður sinni á Markhöfða í Hrútafirði.

Sjálfsmynd sem Eiríkur tók við komuna í Búðardal | Ljósm:Fengin að láni af Facebook síðu Eiríks.Eiríkur Ingi varð þjóðkunnur eftir Kastljósviðtal sem tekið var við hann í kjölfar hins hræðilega sjóslyss sem varð við Noregsstrendur í janúar 2012 þegar togarinn Hallgrímur SI-77 sökk með þeim afleiðingum að þrír skipsfélagar Eiríks létust en hann komst lífs af við illan leik.

Eftir stutt spjall við þennan fyrirmyndardreng, óskuðum við honum góðrar ferðar og góðs gengis í WOW hjólreiðakeppninni síðar í sumar.

Hægt er að fylgjast með ferðum Eiríks á Facebook síðu sem hann hefur búið til í kringum þetta áhugamál sitt, Hjóla Eiki.

eirikur2