Samstaða og góðvild fyrir litla bæjarhátíð

0
899

veltibilinnEins og auglýst hefur verið síðustu daga og flestir vita þá fer fram bæjarhátíðin „Heim í Búðardal“ um næstu helgi, dagana 11.-13.júlí. Þrír sjálfboðaliðar hafa staðið að undirbúningi hátíðarinnar í nafni Dalabyggðar að undanförnu og unnið að því að búa til viðburði og dagskrá fyrir helgina.

Ein af þeim hugmyndum sem upp komu þegar hátíðin var í skipulagninu var að fá hinn svokallaða veltibíl frá Brautinni eða Bindindisfélagi Ökumanna (BFÖ).  Illa gekk að finna styrktaraðila fyrir veltibílinn en samband var haft við nokkur stórfyrirtæki sem vildu ekki styrkja komu bílsins og því voru aðstandendur hátíðarinnar búnir að blása komu veltibílsins af.  

Einn þeirra sem stóð að því að reyna að fá veltibílinn á svæðið ákvað að setja færslu á Facebook síðu sína um að ekki hefði gengið að finna styrktaraðila og var þeirri spurningu varpað fram hvort fólk vissi um einhver fyrirtæki sem væru reiðubúin að hjálpa til við að fá veltibílinn á svæðið.

Það er skemmst frá því að segja að eftir að nokkrir einstaklingar skrifuðu við færsluna byrjaði boltinn að rúlla. Fólk skrifaði inn færslur og bauðst til að borga 5.000 krónur og sumir meira að segja 10.000 krónur. Svo fór að aðstandendur veltibílsins hjá BFÖ fengu fregnir af söfnuninni og lækkuðu þeir gjaldið á bílnum um 15.000 krónur og er þeim þakkað sérstaklega fyrir það.

Allt þetta og þá sérstaklega fyrir góðvild nokkurra einstaklinga varð til þess að veltibíllinn mun mæta á bæjarhátíðina og auka þar með fjölbreytni dagskrárinnar á hátíðinni.

Þessi samtakamáttur og góðvild er til eftirbreytni.

Þeir sem standa að hátíðnni þakka þeim sem styrktu komu veltibílsins innilega fyrir aðstoðina við verkefnið og verða nöfn þeirra sem styrktu bílinn birt á sýnilegum stað við veltibílinn á laugardaginn.

Góða skemmtun á bæjarhátíðinni „Heim í Búðardal“.

Tengill: Vefsíða Veltibílsins

Tengill: Facebooksíða veltibílsins